Mánudagur 12. maí 2008

133. tbl. 12. árg.

F yrr á árum skyldaði íslenska ríkið ungt fólk til að spara með því að skikka það til að leggja hluta launa sinna inn á skyldusparnaðarreikninga. Ávöxtun á þessum reikningum var oft lakari en bauðst annars staðar. Á árunum 1985 til 2000 var hins vegar reynt að lokka fólk til að spara til húsbygginga með skattaafslætti leggðu menn inn á sérstaka bankareikninga.

Það var eðlilegur þáttur í stefnu ríkisstjórna Davíðs Oddssonar að fallið var frá því að skylda eða lokka menn til að spara með ákveðnum hætti og fyrir ákveðnum hlutum. Menn reyndu að einfalda skattkerfið, fækka undanþágum og lækka skatthlutföl. Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa og húsnæðissparnaðar var felldur niður.

Í tengslum við kjarasamninga einhverra manna í febrúar kynnti ríkisstjórnin hins vegar ýmsar ráðstafanir í efnahags- og skattamálum sem Vefþjóðviljinn setti nokkra fyrirvara við:

Hækkun barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta ásamt hækkun á persónuafslætti minnka því miður líkurnar á því að hér verði tekinn upp flatur tekjuskattur einstaklinga. Það er verið að snúa af þeirri braut að lækka skatthlutfallið og fella í staðinn niður alls kyns afslætti og bætur. Nú ætla menn að flækja skatt- og bótakerfinu svo rækilega saman að enginn átti sig almennilega á því hvað ríkið tekur af mönnum og lætur til baka.

Að auki boðar ríkisstjórnin sértækar aðgerðir eins og húsnæðissparnaðarreikninga með skattaafsætti fyrir fólk á ákveðnum aldri og niðurfellingu stimpilgjalda fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Satt best að segja vonaði Vefþjóðviljinn að hugmyndir um húsnæðissparnaðarreikninga og sértæka niðurfellingu stimpilgjalda myndu aldrei verða að veruleika. En nú er þegar búið að samþykkja flóknar og stórundarlegar reglur um niðurfellingu stimpilgjalda í ákveðnum tilvikum. Í síðustu viku svaraði fjármálaráðherra svo fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar alþingismanns um hvort það færi ekki að bresta á með húsnæðissparnaðarreikningum til handa þeim sem ætluðu hugsanlega að kaupa sér íbúð í framtíðinni.

 Ó jú, það er bara spurning hvort það næst fyrir þinglok í vor að sögn fjármálaráðherrans. Enn ein rökin fyrir því að þingmenn hafi sem lengst sumarfrí.

Ætli skyldusparnaðurinn fari ekki að ganga aftur?