Föstudagur 11. nóvember 2005

315. tbl. 9. árg.

Kjör varaformanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í lok maí í vor hlýtur að teljast einn undarlegasti atburður ársins. Eins og Vefþjóðviljinn rakti á sínum tíma virðist sem mun fleiri hafi greitt atkvæði í kjörinu en voru með fisíska nærveru á fundinum þegar kjörið fór fram. Atkvæði voru greidd rafrænt svo svindl var bæði einfalt og fljótlegt.

Nú tæpu hálfu ári síðar eru enn að skjóta upp kollinum mál sem tengjast þessu varaformannskjöri sem Ágúst Ólafur Ágústsson hafði sigur í. Ágúst Ólafur telur kannski að málið sé fyrnt en svo er ekki. Í DV í fyrradag var frétt af vandamálum sem komu upp við prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri um síðustu helgi. Þegar kjörskrá var lögð fram kom í ljós að aðeins fimm félagar voru í Stólpa, félagi ungra jafnaðarmanna á Akureyri, að því að DV hefur eftir Láru Stefánsdóttur formanni prófkjörsnefndar Samfylkingarinnar á Akureyri. Þetta er auðvitað ánægjulegt fyrir þessa fimm því í stjórn Stólpa eru einmitt fimm stjórnarmenn og því engin hætta á að slegist sé um stjórnarsæti á aðalfundum í félaginu. Nema auðvitað að svo óheppilega hafi viljað til að einhverjir stjórnarmenn hafi bara ekki verið í félaginu.

Í samtalinu við DV sagði Lára Stefánsdóttir einnig, með þeim fyrirvara sem eðlilegt er að gera við fréttir í því blaði:

Við komumst að því að um 60 ungliðar voru skráðir í Unga jafnaðarmenn í Reykjavík en ekki Stólpa, félag ungra jafnaðarmanna á Akureyri. Þetta er eitthvað sem við munum skoða vandlega.

Andrés Jónsson formaður Ungra jafnaðarmanna fór fyrir kosningabaráttu Ágústs Ólafs Ágústssonar í aðdraganda landsfundarins og DV spurði hann um þetta mál á Akureyri: „Þetta voru bara einhver nöfn á blöðum sem þurfti að skrá í eitthvert félag,“ sagði hann. Þegar DV spurði hann hvort hringt hefði verið í viðkomandi til að athuga hvort fólkið hefði áhuga á þessari skráningu svaraði Andrés: „Nei í fæstum tilvikum voru símanúmer við nöfnin þeirra.“

 Ágúst Ólafur sjálfur gaf DV ekki síður athyglisverðar skýringar á því hvernig þessir Norðanmenn voru fluttir til Reykjavíkur:

Þessir einstaklingar voru aðeins skráðir í Unga jafnaðarmenn á landsvísu en þurftu aðildarfélag til að geta tekið þátt í landsfundinum. Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík gera ekki kröfu um lögheimili og því voru þeir skráðir þar.

Eins og menn vita fá flokksfélög landsfundarfulltrúa í hlutfalli við fjölda félagsmanna. Því fleiri félagsmenn því fleiri landsfundarfulltrúar. Það er þægilegt að geta fengið heimilislausa Akureyringa lánaða þegar mikið liggur við.

Ágúst Ólafur heldur því fram að umræddir einstaklingar hafi verið „skráðir í Unga jafnaðarmenn á landsvísu“. Þegar 3. grein laga Ungra jafnaðarmanna (UJ) á landsvísu er lesin er hins vegar ekki gert ráð fyrir að einstaklingar séu félagar í UJ heldur að samtökin séu heildarsamtök allra félaga og málefnahópa ungra jafnaðarmanna vítt og breitt um landið. Samtökin taka lögum samkvæmt ekki við aðildarumsóknum frá einstaklingum heldur aðeins frá félögum eða málefnahópum. Einungis félagsmenn aðildarfélaga samtakanna eiga seturétt á landsþingi UJ.

Þessu til viðbótar segir í grein 2.09 í lögum Samfylkingarinnar sjálfrar:

Skrifstofa Samfylkingarinnar heldur félagaskrá fyrir flokkinn og öll aðildarfélög hans. Hún sér um að færa fólk milli aðildarfélaga í samræmi við búferlaflutninga og tilkynna stjórnum aðildarfélaga um það. Óheimilt er að láta utanaðkomandi aðilum í té félagaskrár aðildarfélaga eða annast áritanir úr félagatali fyrir aðra.

Það er því ekki hlutverk einstakra aðildarfélaga að færa menn á milli félaga heldur þarf flokksskrifstofan að gera það í samræmi við búferlaflutninga. Ágúst Ólafur virðist því ekki aðeins misskilja og brjóta lög UJ heldur einnig Samfylkingarinnar sjálfrar.

Það sem vantar núna er að fjölmiðlar ræði þetta mál við Kristján Ægi Vilhjálmsson sem ritaði grein til stuðnings varaformannsframboði Ágústs Ólafs í Morgunblaðið 19. maí 2005. Kristján Ægir var á þeirri stundu formaður Stólpa, félags Ungra jafnaðarmanna á Akureyri, fimm manna félags með fimm manna stjórn.