Fimmtudagur 10. nóvember 2005

314. tbl. 9. árg.

Meðal þeirra ungu íslensku íþróttamanna sem um miðja síðustu öld náðu í allra fremstu röð í Evrópu, var kúluvarparinn Gunnar Huseby. Hann varð meðal annars Evrópumeistari í kúluvarpi árið 1946 en þrátt fyrir það höfðu ýmsir landar hans ekki mikið álit á honum sem íþróttamanni og höfðu við orð að hann næði árangri með kröftum en ekki tækni. Hann kann hreinlega ekki að kasta kúlu, sögðu sumir. Það var eftir slíka athugasemd sem Halldór Laxness var sagður hafa spurt hvað myndi þá eiginlega gerast ef Huseby lærði nú að kasta kúlu; hvert fyki hún þá!

Að sínu leyti mætti spyrja hins sama á móti þeim athugasemdum sem Stefán Jón Hafstein hefur sett fram vegna nýliðins prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Stefán Jón lýsti nefnilega þeirri skoðun að sjálfstæðismenn hefðu staðið frammi fyrir „tveimur lökum kostum“ þar sem þeir hefðu verið þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson. Nú geta menn auðvitað reynt að velta fyrir sér hvernig reglulegir álitsgjafar fjölmiðlanna tækju því ef sjálfstæðismenn afgreiddu frambjóðendur í prófkjörum vinstri manna með þessum hætti, en það er samt rétt að sleppa slíkum vangaveltum. Miklu nær er að spyrja eins og Halldór Laxness var sagður hafa gert, því að Stefán Jón talar alveg eins og þeir sem gagnrýndu Gunnar Huseby fyrir að kunna ekkert í kúluvarpi. Sjálfstæðisflokkurinn hélt fjölmennasta prófkjör sem haldið hefur verið á Íslandi. Á þrettánda þúsund manns kom og kaus og auðvitað blasir það við að það var baráttan um fyrsta sætið sem dró flesta á staðinn. Fyrst að Stefán Jón Hafstein telur að þar hafi fólk „gert upp á milli tveggja lakra kosta“, þá kannski getur hann svarað því hvað hefði gerst ef sæmilegir menn hefðu verið í boði; hversu margir hefðu þá eiginlega kosið?

Annars er það helst að frétta af Stefáni Jóni að hann hefur nú fengið aukaaðild að Samtökunum ‘78, þar sem hann hefur stofnað sérstaka deild sjálfkynhneigðra. Sú deild hefur nú á prjónunum fyrstu sjálfumgleðigönguna sem farin hefur verið í miðborginni, og er þess að vænta að þar verði bæði fámennt og góðmennt.

Nokkur óánægja mun hafa orðið með það að Stefán Jón Hafstein setti merki Samfylkingarinnar á auglýsingu sem hann birti á dögunum til þess að hvetja landsmenn til þess að lesa nú einu sinni blaðagrein eftir sig. Samfylkingin mun þó ekki ætla að hafast neitt að vegna þessarar notkunar Stefáns Jóns á flokksmerkinu og gefur þá skýringu að engar reglur séu til sem banni neinum að nota merkið að vild sinni. Við fyrstu sýn kemur vafalaust mörgum á óvart að nokkur flokkur telji að allir megi nota merki sitt að vild svo lengi sem slík notkun er ekki sérstaklega bönnuð, en á því kann auðvitað að vera önnur skýring. Merki Samfylkingarinnar er sem kunnugt er rauður hringur á hvítum grunni og er einnig þekkt undir nafninu japanski fáninn. Það er því ekki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heldur Akihito keisari sem fer með umráðarétt flokksmerkisins. Japanskeisari skartaði auk þess lengi titlinum „sonur sólarinnar“, og telur þannig til skyldleika við Stefán sjálfan.