Miðvikudagur 9. nóvember 2005

313. tbl. 9. árg.

N

Á Alþingi sitja nú nokkrir þingmenn sem telja afar brýnt að skattgreiðendur verði látnir niðurgreiða flutninga á sjó.

okkrir þingmenn af vinstri kantinum, þeir Jón Bjarnason, Guðjón A. Kristjánsson, Sigurjón Þórðarson, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um strandsiglingar. Þingmennirnir vilja að samgönguráðherra „móti stefnu og aðgerðaáætlun“ um strandsiglingar og leggi fram lagafrumvörp ef með þurfi, „þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir“. Þeir benda á að á síðustu árum hafi strandsiglingar smám saman verið að leggjast af hér á landi og telja að ekki verði við það unað enda megi fullyrða, „að sjóflutningar meðfram strandlengjunni séu verulega vannýttur samgöngukostur“. Þá telja þeir brýnt að „ráðherra grípi strax til aðgerða“.

Það þarf víst engum að koma á óvart að vinstri menn, hvort sem þeir sitja á Alþingi, á kaffihúsum, í hljóðverum eða bara heima hjá sér, telji brýnt að ráðherrar grípi til aðgerða. Fái vinstri menn nokkru ráðið gera ráðherrar ekkert annað en „móta stefnu“ og gera „aðgerðaráætlanir“ og „tryggja“ því næst að auknu opinberu fé verði varið til hinna og þessara verkefna. Ráðstjórnarhugsunarhátturinn er nefnilega ekki með öllu horfinn úr hugum vinstri manna þótt járntjaldið hafi fallið og kenningarnar um ágæti ríkisforsjárinnar hafi verið verið afhjúpaðar. Ennþá er ótrúlega algengt að þess sé krafist af hinu opinbera að það taki að sér þjónustu sem einkaaðilar vilja ekki sinna vegna þess að enginn markaður er fyrir hana.

Fyrir rúmum áratug lagði Halldór Blöndal, sem þá var samgönguráðherra, niður Ríkisskip og greinilegt er að fyrrnefndir þingmenn Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins sakna mikið þessa opinbera strandflutningafyrirtækis. Þeir leggja þó ekki í að mæla með því að þetta fyrirtæki verði endurvakið, en krefjast þess í staðinn að ríkið niðurgreiði strandsiglingar með fjárframlögum til einkaaðila í skiparekstri. Ekki er gott að sjá hvers vegna þessir þingmenn telja sig þess umkomna að fullyrða að einstaklingar og fyrirtæki á markaði taki rangar ákvarðanir þegar þau ákveða að notast við bíla en ekki skip við flutninga innanlands, en ljóst er að þeir eru mjög vissir í sinni sök. Þeir eru jafnvel svo sannfærðir um að flytja eigi með skipum í stað bíla, að þeir eru reiðubúnir til að láta skattgreiðendur bera kostnaðinn af flutningunum að hluta til.

Og hvað ætli gerðist svo ef að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra yrði við þessari undarlegu kröfu þingmannanna og mundi taka upp á því að niðurgreiða strandsiglingar? Ætli afleiðingin yrði ekki sú að landflutningafyrirtæki mundu kvarta og einhverjir þingmenn – jafnvel þeir sömu – kæmu í framhaldi af því með þingsályktunartillögu um stuðning við landflutninga. Rökin væru skýr: Landflutningar ættu undir högg að sækja vegna þess að ríkið niðurgreiddi strandflutninga og þess vegna væri talið nauðsynlegt að rétta samkeppnisstöðu landflutninganna með því að niðurgreiða þá líka. Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem ein ríkisafskipti yrðu notuð til að rökstyðja þau næstu.

Hitt er annað mál að ekki verður séð að umtalsverð hætta sé á að Sturla verði við óskum þingmannanna, því að segja má að hann hafi svarað kröfu þeirra í ræðu sem hann hélt í fyrra á ársfundi Hafnarsambands sveitarfélaga. Í ræðunni ræddi Sturla meðal annars um þróun og horfur í strandsiglingum og sagði þá að í grófum dráttum kæmi aðeins tvennt til greina ef að strandsiglingar ættu að hefjast á ný. Annað hvort þyrfti að „gera landflutningana dýrari og þá væntanlega með aukinni skattheimtu“ eða þá „að styðja við bakið á strandflutningum með fjárframlögum eða ígildi þeirra“. Sturla lauk þessari umræðu með því að segja að hann teldi hvorugan þessara kosta heillandi. Hægt er að taka undir að skattheimta eða niðurgreiðslur verða seint heillandi – nema að vísu í augum þingmannanna fimm sem nefndir voru hér í upphafi.