Laugardagur 12. febrúar 2005

43. tbl. 9. árg.

R óbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands var í sjónvarpsþætti á dögunum spurður að því hvort að sú staðreynd að hann er vinstra megin í stjórnmálum hafi ekki litað fréttaflutning hans og orðið til þess að hann sást ekki fyrir í umfjöllun sinni sem aftur hafi orðið til þess að hann hafi endað með því að þurfa að segja upp störfum á fréttastofu Stöðvar 2. Róbert taldi þetta af og frá og sá stjórnmálaflokkur sem hann hefði verið í væri ekki lengur til og hann væri ekki í neinum flokki nú. Vitaskuld var þetta ekkert svar við spurningunni, því að menn geta verið jafn blindaðir af skoðunum sínum utan flokka sem innan og menn hætta ekki sjálfkrafa að hafa skoðanir við það að flokkar þeirra renni inn í aðra flokka eða leggist í dvala. Þetta var sem sagt svona dæmigert ekki-svar við ágætri spurningu sem því miður var ekki fylgt eftir frekar en svo oft er um slíkar spurningar.

Er þessi bolur til marks um mikla smekkvísi þess sem honum klæðist?

En svo er það önnur spurning hvort að flokkur Róberts hefur hætt störfum. Flokkur Róberts var Alþýðubandalagið, þar sem hann var meðal annars formaður ungliða flokksins, Æskulýðsfylkingarinnar, fyrir nokkrum árum. Svo einkennilegt sem það nú er, þá hefur Alþýðubandalið ekki með öllu hætt störfum. Á Neskaupsstað er að minnsta kosti enn starfandi flokksfélag en sá bær hefur lengi mátt líða fyrir það að vera rauðari en flest annað og fékk meðal annars viðurnefnið Litla-Moskva. Starfsemi Alþýðubandalagsins á Neskaupsstað einskorðast að vísu hin seinni árin við að halda þorrablót bæjarins, kommablótin eins og þau eru kölluð, sem þykja töluverð skemmtun þar eystra. Nú eru þessi blót vafalítið hin saklausasta skemmtun, en þó er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvernig á því stendur að við hæfi þykir að halda slíka skemmtun undir þessum formerkjum, það er að segja kommablót.

Ef til vill er þetta ekkert til að amast við, en hvað segðu menn ef haldin væru þorrablót í nafni einhverrar annarrar helstefnu? Hvað þætti mönnum ef haldin væru nasistablót í einhverju litlu bæjarfélagi á landsbyggðinni? Þætti það bara óskaplega sniðugt? Ætli bæjarbúum og gagnrýnum fjölmiðlum þætti það hið besta grín? Nú er það svo að margfalt fleiri eru taldir hafa drepist vegna kommúnismans en nasismans, líklega um 100 milljónir manna. Er samt sem áður sniðugt og skemmtilegt að halda þorrablót í nafni slíkrar stjórnmálastefnu? Og er sjálfsagt og eðlilegt að bera um allt andlit forsprakka þessarar stefnu, eins og sumir virðast telja að sé í tísku? Væri þá ef til vill flott að vera með leiðtoga þriðja ríkisins á stuttermabolnum sínum? Eða að bera nælu með merki þriðja ríkisins? Það má vera að þetta sé allt saman óskaplega smart, en líklegra er að þetta sé smekklaust og virðingarleysi við þær milljónir sem létu lífið og liðu þjáningar vegna þessara stjórnlyndu stjórnmálastefna.