Vefþjóðviljinn er sjálfsagt ekki einn um að undra sig á því að enn er verið að ræða „aðdraganda“ þess að íslensk stjórnvöld veittu Bandaríkjunum pólitískan stuðning til innrásar í Írak fyrir tveimur árum. Einstakir fjölmiðlar og fjölmiðlamenn virðast hafa mikla unun af því að ræða þetta mál, ekki síst við Halldór Ásgrímsson fyrrverandi utanríkisráðherra. Menn hafa eðlilega velt því fyrir sér hvort það sé af því að þessum fjölmiðlamönnum sé í nöp við Halldór. En óvild í garð ríkisstjórnarinnar og Halldórs er kannski ekki eina skýringin á þessu.
Fyrir nokkrum árum spilaði knattspyrnu hér á landi maður að nafni Mihajlo Bibercic. Þetta var á þeim tíma sem Balkanskagi var mjög í heimsfréttunum, ekki síst Serbar sem áttu í slíkum útistöðum við nágranna sína að Evrópusambandið mátti sig hvergi hræra þótt fjöldamorðin færu fram í sjónmáli þess. Íslenskir íþróttafréttamenn gátu bara ekki stillt sig á þessum árum. Þegar Bibercic náði að sparka í tuðruna hrópuðu þeir undantekningarlítið „Serbinn Bibercic“! Með því að segja „Serbinn“ var óneitanlega kominn heimsfréttabragur á lýsinguna. Þannig var íþróttafréttamaðurinn í raun farinn að fjalla um heimsviðburði en ekki bara íslenskan fótbolta. Ekki þarf að fjölyrða um hvort er flottara.
Á liðnum misserum hafa heimsfréttir sem von er snúist mjög um aðdraganda innrásarinnar í Írak. Svo virðist sem leyniþjónustur Vesturlanda hafi ofmetið vopnabúr Saddams Husseins og þar með byggt ákvörðun um innrásina að hluta til á röngum upplýsingum. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og ekki síður í Bretlandi hafa átt undir högg að sækja vegna þessa og „heimspressan“ látið mjög til sín taka. Afstaða íslenskra stjórnvalda til innrásarinnar skipti auðvitað litlu sem engu máli um endanlega ákvörðun um hana í Washington og London. Það þarf engan að undra að íslensk stjórnvöld ákváðu að standa með helstu lýðræðisríkjum heims gegn einræðisherra sem hafði ráðist á alla nágranna sína, að eigin þegnum ógleymdum og brotið afvopnunarsamning við Sameinuðu þjóðirnar samfellt í rúman áratug. Því kemur þessi endalausa umræða um „aðdragandann“ og „Íraksmálið“ í rammíslensku samhengi einkennilega fyrir sjónir. Er sá misskilningur virkilega fyrir hendi að spyrja þurfi Halldór Ásgrímsson jafnoft um hvernig íslensk stjórnvöld komust að þeirri niðurstöðu að veita helstu lýðræðisríkjum heims pólitískan stuðning gegn einræðisherranum og Condoleezza Rice þarf að svara því hvers vegna Bandaríkin hafi fórnað lífi og limum þúsunda hermanna sinna til að losa Íraka við kúgara sinn?
Þykir íslenskum fréttamönnum kannski sem þeir séu meiri þátttakendur í heimsfréttunum ef þeir geta krafið stjórnvöld svara um „aðdragandann“ og „Íraksmálið“ eins og félagar þeirra í heimspressunni gera?