Ígær bárust fáheyrð tíðindi. Samgönguráðherra hafði lýst yfir vilja sínum til þess að Gufufjörður og Djúpifjörður í Barðastrandasýslu yrðu „þveraðir“, og þar með farin leið sem myndi stytta leiðina frá Patreksfirði suður til Reykjavíkur töluvert. Þessi þverun yrði hins vegar hálfum milljarði króna dýrari en hinn möguleikinn sem til athugunar var, sá að endurbæta veginn um þessa firði. Og þá kemur það fáheyrða. Í vestfirskum fjölmiðlum er því nú haldið fram að heimamönnum þyki „sem stytting leiðarinnar vegi fyllilega upp á móti auknum kostnaði“. Og þessi óvænta afstaða heimamanna, að þeir telji aukið gagn sitt af veginum „vega upp“ hálfs milljarðar króna útgjaldaaukningu fyrir skattgreiðendur. Ríkisútvarpið þuldi þessa staðreynd yfir saklausu fólki í gærkvöldi eins og ekkert væri sjálfsagðara. Vegurinn yrði að vísu hálfum milljarði króna dýrari svona, en heimamenn teldu hins vegar að það væri vel þess virði.
Ætla „heimamenn“ kannski að borga þennan nýja veg? Eða, svo ekki sé farið fram á meira, þessar fimmhundruð aukamilljónir sem þverunin kostar? Nei, ætli þeir telji ástæðu til þess? Og almennir skattgreiðendur, þessir sem eru hinumegin á vegasaltinu, hvað segja þeir og gera? Sennilega ekki neitt. Þetta væri þá dæmigerð útgjaldaaukning ríkissjóðs. Hagsmunahópur, í þessu dæmi sveitarstjórnir og „heimamenn“ á einhverju svæði, jagast og jagast í ráðherra. Enginn jagast hinumegin frá. Enginn heitir honum stuðningi ef hann heldur áfram að neita. Enginn stendur með honum þegar hann jafnvel árum saman fer í gegnum prófkjör og kosningar án þess að samþykkja rándýran veg. En á endanum gefur hann auðvitað eftir. Hagsmunahóparnir hugsa ekki um neitt annað. Þeir telja ráðherrann ómögulegan og „skilningslausan“ svo lengi sem hann samþykkir ekki kröfur þeirra. Enginn talar gagnstæðu máli. Enginn kann við að tala gegn einstökum framkvæmdum, hvort sem það er þverun vegar, göng í gegnum fjall, risahús eða rándýr ný lög. Og meðan menn leggja ekki í atlögu gegn rétttrúnaðarmálunum, þá halda þau áfram Einstaka ráðherra nær að bíta hagsmunahópana af sér. Flestir neyðast til að lúffa á endanum.