Helgarsprokið 13. febrúar 2005

44. tbl. 9. árg.

Ívikunni sem leið kvartaði fjármálaráðherra yfir því að innfluttar vörur hefðu ekki lækkað að gagni þrátt fyrir sterka krónu og veikan dal. Ráðherrann var hins vegar ekkert mjög heppinn að taka áfengi sem dæmi um innflutta vöru sem hefði ekki lækkað í kjölfar hækkunar krónunnar. Hann hefði raunar ekki valið verra dæmi. Áfengisinnflytjendur hafa sem von er brugðist ókvæða við þessari dæmisögu ráðherrans og útskýrt það ágætlega í fjölmiðlum að jafnvel þótt þeir lækkuðu verð á flöskunni frá sér hefði það lítil áhrif á útsöluverðið hjá áfengiseinokun ríkisins.

Á hvern sentílítra alkóhóls er nefnilega lagt svonefnd áfengisgjald. Þetta gjald er föst krónutala á hvern sentílítra áfengis. Engu máli skiptir hvert innkaupsverð flöskunnar er, þessi skattur fer aðeins eftir áfengismagninu. Rauðvínsflaska sem kostar 100 krónur í innkaupum fær sama skatt og flaska sem kostar 10.000 krónur í innkaupum, ef þær innihalda sama áfengismagn. Fyrir venjulega rauðvínsflösku er þetta gjald um 400 krónur. Á 100 króna flöskuna er þetta gjald því 400% skattur en „aðeins“ 4% á 10.000 króna flöskuna. Þegar um svona fastan krónutöluskatt er að ræða hefur það lítil hlutfallsleg áhrif á útsöluverðið þótt innkaupsverðið lækki jafnvel um tugi prósenta. Þótt innkaupsverð lækki úr 150 krónum í 100 krónur lækkar útsöluverðið ekki um þriðjung heldur kannski bara um 5%! Þetta lag á skattheimtu af áfengum drykkjum ber öll merki þess að ríkið hugsar fyrst og fremst um að skattleggja möguleg ölvunaráhrif af vínum og öðrum áfengum drykkjum. Áfengisgjaldið er skattur á fyllerí.

„Skattlagning af þessu tagi, sem hleypir verði á ódýrri vöru upp um mörg hundruð prósent, verður þess einnig valdandi að þeir sem minnst hafa eiga þess vart kost að njóta vörunnar.“

En fátt er svo með öllu illt. Þótt ráðherrann hafi verið óheppinn með dæmið sitt verður þessi umræða vonandi til þess að hann tekur það til athugunar hvort skattalagningu áfengra drykkja á að einvörðungu að miða við mögulegt fyllerí. Vefþjóðviljinn er vonandi ekki að setja sig á háan hest þótt hann þykist kannast við menn sem kaupa áfengi, bjór og vín sem eimaða drykki, í öðrum tilgangi en að finna fyrir sem mestum áhrifum af etanólinnihaldinu. Hann upplýsir það hér með og vonar að þau firn spyrjist til æðstu staða og tekið verði tillit til þessara manna næst þegar farið verður yfir það hvernig haga beri skattlagningu á áfengi.

Skattlagning af þessu tagi, sem hleypir verði á ódýrri vöru upp um mörg hundruð prósent, verður þess einnig valdandi að þeir sem minnst hafa eiga þess vart kost að njóta vörunnar. Áfengisgjaldið þýðir í raun að menn sem vilja drekka eina vínflösku í viku þurfa að lágmarki 4.000 krónur til þess á mánuði en ef áfengi væri bara skattlagt eins og flestar aðrar vörur þyrfti ekki nema 500 krónur til þess. Hvers á láglaunamaðurinn að gjalda? Hvers vegna eru þeir tekjulægstu nær útilokaðir frá því að njóta víns með helgarsteikinni? Þetta á raunar við um alla neyslustýringaraðgerðir ríkisins. Háir skattar á bíla leggjast auðvitað þyngt á þá sem hreinlega geta ekki keypt sér bíl vegna þeirra. Innflutningshöft á matvæli koma helst niður á þeim sem síst skyldi.

Og ekki er nóg með að ríkið níðist á láglaunafólkinu með þessum eina hætti. Nei, ríkið rekur einnig verslun í Leifsstöð sem selur áfengi án áfengisgjalds. Sú verslun er aðeins fyrir þá sem hafa efni og eiga kost á að flakka milli landa. Þeir mega taka nokkrar flöskur með sér inn í landið án þess að greiða áfengisgjaldið eða skilagjaldið, vörugjaldið og virðisaukaskattinn sem hlaðast ofan á verðið hjá áfengiseinokun ríkisins.

Því var lengi haldið fram að víndrykkja gerði ekkert annað en að stytta ævi manna. Áður en sannleiksgildi þessarar fullyrðingar var rannsakað svörðuðu góðglaðir drykkjumenn því til að þetta væri ekki alls kostar rétt; líf án vína virtist bara lengra. Ýmsar síðara tíma rannsóknir benda svo til þess að hófleg drykkja vína dragi úr líkum á því að menn verði mörgum af skæðustu sjúkdómum samtímans að bráð.  Er forsvaranlegt að útiloka efnaminnsta fólkið frá þessum kostum?