Mánudagur 14. febrúar 2005

45. tbl. 9. árg.

Gunnar Örlygsson heitir maður og er alþingismaður. Hann hefur undanfarna daga verið í fréttum vegna þeirrar tillögu sinnar að hætt verði að gera kröfur til klæðaburðar alþingismanna í þingsal og orða þeirra úr ræðustóli. Ekki nennir Vefþjóðviljinn að fjalla um þessar óskir Gunnars að þessu sinni, fyrir utan að láta í ljós þá hógværu skoðun að alþingi mætti kannski liggja meira á öðrum breytingum en þeim sem einkum munu hugsaðar til að losa þingmenn undan þeirri áþján að þurfa með búningi eða orðfæri að láta eins og þeir beri virðingu fyrir starfi sínu og samþingmönnum. En vitaskuld er viðeigandi búningur engin trygging fyrir að þingmenn kunni sig. Hann var með bindið reyrt bæði þétt og fast um háls, alþingismaðurinn sem orgaði um samþingmann að sá væri bæði gunga og drusla, af því að hann var ekki viðlátinn á nákvæmlega því andartaki sem hinum orðvara þóknaðist að eiga við hann orð. En nóg um það. Gunnar Örlygsson hefur raunar mælt athyglisverðari orð en sumir aðrir úr ræðustóli alþingis. Í útvarpsumræðum í fyrra skar hann sig til dæmis frá rétttrúnaðarliðinu í einu atriði, og of lengi hefur dregist að vekja athygli á þeim orðum hans, honum til hróss. Hinn 25. maí 2004 sagði Gunnar Örlygsson meðal annars:

Ég gagnrýni harðlega lög sem heyra undir fæðingar- og foreldraorlofssjóð feðra. Að svo komnu tel ég það rangt í þjóðhagslegum skilningi að hvetja unga feður að taka sér frí frá störfum í þrjá mánuði eftir fæðingu barna sinna. Ég er jafnréttissinnaður í hjarta mínu og vil veg og vanda dóttur minnar sem mestan. En ég er jafnframt upplýstur um þá staðreynd að móðirin gegnir mikilvægara umönnunarhlutverki en faðirinn á þeim tíma sem börnin eru að stíga sín fyrstu skref í lífinu. Því tel ég aðrar leiðir árangursríkari til að rétta við óréttlátan launamun kynjanna á íslenskum atvinnumarkaði. Svokölluð fæðingarorlofslög kosta þjóðina fleiri milljarða íslenskra króna á ári. Ég tel rétt að slíkir fjármunir mundu nýtast betur til handa þeim sem óvænt missa atvinnu sína eftir margra ára heiðarleg og góð störf, til að mynda með greiðslu atvinnuleysisbóta þar sem fyrstu fjóra til sex mánuðina kæmi til tekjutenging á fyrri störf á meðan viðkomandi leituðu nýrra atvinnutækifæra.

Þótt Vefþjóðviljinn sé ekki sammála því að tekjutengja beri atvinnuleysisbætur er hressandi að heyra þingmann gefa rétttrúnaðinum langt nef. Mikið væri gaman ef þessi ungi þingmaður og aðrir slíkir gerði það í fleiri málum og léti stjórnarandstöðulínuna oftar eiga sig.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur kynnt nýtt frumvarp. Hann vill breyta lögum um meinatækna. Þeir eiga ekki að heita meinatæknar lengur. Þeir eiga að heita lífeindafræðingar. Nei, þetta verða sko engir meinatæknar meir. Lífeindafræðingar skulu þeir heita. Engir tæknar neitt, heldur fræðingar.

Og hvernig halda menn að hugmyndin hafi kviknað? Ætli Jón hafi bara fengið hugljómun? Eða ætli það geti verið að meinatæknafélagið hafi ofsótt hann? Kannski hefur ekki einu sinni þurft ofsóknir til. Jón Kristjánsson hefur ekki hafnað erindi frá því hann ungur maður hafnaði alveg hugmyndum Hannesar Hafsteins um ritsíma.

En hér er skylt að taka fram, að honum leist ekki meira en svo vel á tilboð Marconi-félagsins heldur.