Af þeim sem bera ábyrgð á fjármunum í landinu eru sveitarstjórnarmenn hirðulausastir. Það skiptir engu hve mikið tekjur bæjarsjóða aukast alltaf tekst að eyða innkomunni jafnharðan og helst nokkru til viðbótar. Í fyrradag undirrituðu sveitarstjórnarmenn kjarasamning við kennara sem sveitarfélögin hafa ekki efni á. Um það eru allir sammála, líka sveitarstjórnarmennirnir. Samt skrifuðu þeir undir.
Ef sveitarstjórnarmenn væru eðlilegir menn hefðu þeir sennilega farið heim að lokinni undirritun samninganna, sem þeir hafa ekki efni á, til að leggja á ráðin um hvernig megi spara og hagræða í rekstrinum til að ná endum saman.
Því taldi Vefþjóðviljinn bera vel í veiði í Fréttablaðinu í gær þar sem rætt var við bæjarstjórann í Hafnarfirði, Lúðvík Geirsson. Og um hvað var rætt? Hvar megi fækka í starfsliði bæjarins? Hvort slá megi af nokkrar óþarfar nefndir? Hvort bjóða megi út einhverja starfsemi? Nei menn verða að átta sig á að Lúðvík er sveitarstjórnarmaður og þeir láta ekki segjast. Í gær birtist viðtal við Lúðvík Geirsson bæjarstjóra um það hvernig neyða megi bæjarbúa í gegnum bæjarsjóð til að byggja nýja skautahöll. Á sama tíma og blekið er að þorna á samningnum sem sveitarfélögin hafa ekki efni á situr Lúðvík með blaðamanni og fabúlerar um rándýra skautahöll.
Lúðvík segir að þrátt fyrir að bæjaryfirvöld séu sér vitandi um talsverðan áhuga meðal almennings í bænum hafi enn sem komið er ekki verið stofnað formlegt skautafélag. „Það er stundum undanfari þess að sveitarfélög fari út í kostnaðarsamar aðgerðir á borð við að reisa skautahöll að áhuginn sé sannanlegur í bænum og þó að ég viti vel af miklum áhuga hefur mér vitandi enginn stofnað íshokkí- eða skautafélag enn sem komið er.“ |
Já það er „stundum“ undanfari þess að sveitarfélög fari út í kostnaðarsamar aðgerðir að áhugi sé á þeim í bænum. Það er gott að vita til þess að það er ekki algild regla hjá bæjarstjórn Hafnarfjarðar að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir ef áhuginn er enginn. Og áhuginn er svo lítill á skautahöll að enginn hefur stofnað félag um málið en samt er bæjarstjórinn, nýbúinn að skrifa undir samning um útgjöld sem hann hefur ekki efni á, mættur í blöðin til að hvetja sjálfan sig og aðra bæjarfulltrúa til dáða vegna skautahallar.
Og þótt áhuginn sé svo takmarkaður á skautasvellinu að enginn hefur stofnað félag um málið hefur bæjarstjórinn fundið lausn framhjá því.
Framtíðin er sú að bærinn komi aðeins að litlu leyti að fjármögnun íþróttamannvirkja en kaupi þess í stað tíma af þeim sem húsið byggir. Ég fullyrði að allt slíkt yrði skoðað með opnum huga en að öðru leyti eru þessar hugmyndir í startholunum. |
Bærinn ætlar ekki að byggja skautahöllina sjálfur heldur leigja „tíma“ af þeim sem byggir. Hvað ætli það verði margir tímar? Kannski svona 80 til 90% af þeim tímum sem í boði eru? Og verða þau 10 til 20% sem eftir standa kannski tekin af leigu af íþróttafélögum sem fengið hafa styrk til þess úr bæjarsjóði? Ætli bæjarsjóður muni ekki gera samning til svona 25 ára um að kaupa tíma í höllinni? Það getur vissulega verið hagstæðara fyrir bæjarfélög að notast við svonefnda einkaframkvæmd en það er fráleitt að nota slíkar hugmyndir sem röksemd fyrir því að fara út í framkvæmdir sem bærinn mun greiða þegar upp er staðið.