Fimmtudagur 18. nóvember 2004

323. tbl. 8. árg.

R-listinn, þessi sem fyrir kosningar segist alltaf hafa „lækkað skatta“ og fréttamenn snúa sér að næstu frétt, er nú að fara með útsvar borgarbúa eins hátt og lög frekast leyfa. Og þar sem að skattahækkunarþörf R-borgar virðist aldrei verða fullnægt, þá ætlar R-listinn líka að hækka fasteignagjöld, borgarbúum til hagsbóta. R-listinn hefur sennilega séð að með þessum tveimur aðgerðum nær hann bæði unga fólkinu sem vinnur eins og það getur til að koma sér upp húsnæði, og roskna fólkinu sem hefur komið sér upp húseign en hefur minni tekjur. Og þegar R-listinn er búinn að tilkynna um atlögur sínar að þeim borgarbúum sem greiða tekjuskatt eða eiga fasteignir, þá kemur næsta gleðifregnin frá ráðhúsinu. Nú á að snúa sér gegn köttum borgarinnar.

Nú ætlar R-listinn að setja „kattasamþykkt í Reykjavík“ – og þrátt fyrir nafnið mun ekki vera átt við samþykkt sem kettir gera um sín mál. Nei, þetta verður samþykkt R-listamanna um ketti og hvernig þeim verður leyft að lifa í borginni, að minnsta kosti þar til annað verður ákveðið. Og það eiga útigangskettir greinilega ekki að fá að gera, svo dæmi sé tekið. Samkvæmt samþykktinni eiga allir kettir að bera hálsól, með upplýsingum um húsbónda kattarins og símanúmer. Borgarstarfsmenn eiga að handsama ómerkta ketti og ketti sem „ítrekað“ hefur verið kvartað yfir. „Ef kattar er ekki vitjað innan viku frá handsömun er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður.“ Þá verða húsbændur katta, samkvæmt frétt Morgunblaðsins í gær, að útvega sér tryggingu hjá tryggingarfélagi vegna tjóns sem kötturinn kann að valda á mönnum, dýrum, gróðri og munum! – Já góðan daginn, er þetta hjá Sjóvá? Já ég ætlaði að fá hjá ykkur tryggingu, já takk, já ég er sko með kött, þetta er ellefu ára heimakær læða og hún gæti valdið gríðarlegu tjóni á mönnum og munum í borginni. Treystið þið ykkur til að selja tryggingar fyrir þvílíkum hörmungum? – Það er hreinlega eins og borgaryfirvöld séu gengin af vitinu.

Borgin er að hefja baráttu gegn köttunum og þetta er eflaust aðeins fyrsta skrefið, ef ekki verður spyrnt við fótum. Af hverju mega kettir ekki bara vera í borginni og fara um hverfin, flestu sæmilegu fólki til yndis, eins og þeir hafa gert svo lengi sem rakið verður? Af hverju þarf að merkja og skrá alla mögulega hluti, dauða og lifandi? Af hverju þurfa allir að vera tryggðir fyrir öllum sköpuðum hlutum, jafnvel tjóni sem köttur veldur á „munum“ annarra? Jú auðvitað hafa einhverjir ama af köttum, en hvað með það? Eitt af því sem fylgir því að búa í borg er annað fólk. Menn verða einfaldlega að geta þolað einhver óþægindi, jafnvel það að köttur mjálmi, fugl driti eða krakkar nágrannans séu í körfubolta fyrir utan húsið, þegar menn koma þreyttir heim af næturvakt og vilja sofa. Stjórnlyndi þessa liðs í ráðhúsinu virðast fá takmörk sett, en er ekki einhver sem getur komið vitinu fyrir það í þó ekki væri nema svo saklausu máli sem að láta í friði þá ketti sem heyja sína lífsbaráttu í borginni, sumar og vetur, án hjálpar nokkurs manns?

Smáatriði í lokin vegna þessara draga. Þar er sagt að óheimilt sé að halda ketti í fjölbýlishúsum ef kattahaldið valdi eða viðhaldi sjúkdómum hjá nágrönnum. Mætti Vefþjóðviljinn í því sambandi vekja athygli á 13. tl. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þar kemur fram að samþykki allra eigenda fjöleignarhússins þurfi til að leyfa hundahald eða kattahald í húsinu, en skiptist húsið í aðgreinda hluti nægi samþykki þeirra sem hafa sameiginlegan inngang. Sá sem flyst í fjöleignarhús þar sem samþykkt hefur verið hunda- eða kattahald, er bundinn af samþykki fyrri eiganda. Hér þarf R-listinn engu að bæta við og breytir ekki fjöleignarhúsalögunum með samþykkt um kattahald.