S veitarfélögin hafa mjög litla tekjustofna,“ sagði Þórólfur Árnason fráfarandi borgarstjóri R-listans í fréttum í gærkvöldi, þegar rætt var við hann um skattahækkun borgarinnar. R-listinn hafði skömmu áður náð þeim vafasama árangri að hækka útsvar á borgarbúa upp í leyfilegt hámark, 13,03%, og hækka fasteignaskattana að auki í 0,345%. Það er vinsælt nú orðið að tala um tekjustofna og margir stjórnmálamenn sem hafa gefist upp á að sinna starfi sínu, sem meðal annars felst í því að gæta fjár skattgreiðenda, telja líkt og Þórólfur að tekjustofnar séu „litlir“, vilja „útvíkka“ tekjustofnana, „fjölga“ þeim, „efla“ þá, eða gera eitthvað ámóta sem hljómar betur en að hækka skatta en hefur sömu merkingu.
Þessir ágætu tekjustofnar sveitarfélaganna eru þó ekki rýrari en svo að sveitarfélögin taka til sín sífellt vaxandi hlutfall staðgreiðslunnar, það er að segja þeirra skatta sem fólk greiðir beint af launum sínum. Þessir skattar eru stundum í daglegu tali kallaðir tekjuskattar, en skiptast í raun í tekjuskatt, sem fer til ríkisins, og útsvar, sem fer til sveitarfélaganna. Nú er svo komið að rúmlega helmingur þessara beinu skatta, staðgreiðslunnar, fellur í hlut sveitarfélaganna. Skatttekjur sveitarfélaganna hafa vaxið gríðarlega með þeirri miklu hækkun tekna landsmanna sem hefur átt sér stað á síðustu árum og ef sveitarfélögin hefðu sýnt einhverja viðleitni til aðhalds í rekstri væri fjárhagsstaða þeirra sterk í dag.
Sem dæmi um auknar skatttekjur sveitarfélaganna má nefna að álagt útsvar Reykjavíkurborgar samkvæmt álagningarskrá hefur vaxið um ríflega 70% á árunum 1999 til þessa árs, eða úr 15 milljörðum króna í 26 milljarða króna, að því er fram kemur á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það má vera að þetta telji borgarstjóri R-listans til marks um að Reykjavíkurborg hafi „mjög litla tekjustofna“ og þá er það út af fyrir sig athyglisvert viðhorf. Þeir sem hafa ekki gefist upp á að stjórna fjármálum Reykjavíkurborgar hljóta hins vegar að vera sammála um að þessar tölur gefi til kynna að tekjur borgarinnar hafi vaxið gríðarlega og að engin ástæða sé til þess fyrir R-listann að hækka skatta eina ferðina enn.