Þriðjudagur 16. nóvember 2004

321. tbl. 8. árg.
Þann 3. október 1927 komu sjö menn saman á skrifstofu Héðins Valdimarssonar í stórbyggingu Sambands íslenskra samvinnufélaga við Sölvhólsgötu í Reykjavík. Þeir komu víða að úr íslensku þjóðlífi en tilefni fundar þeirra var að stofna olíufélag. Héðinn Valdimarsson var formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, alþingismaður fyrir Alþýðuflokkinn, bæjarfulltrúi í Reykjavík og skrifstofustjóri Landsverzlunar.
– Aðdragandanum að stofnun Olíuverzlunar Íslands hf  lýst í bókinni Þeir létu dæluna ganga – Saga Olís í 75 ár eftir Hall Hallsson.

Þ

Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra koma úr Stjórnarráðinu. Jón er með hattinn fræga sem olíuforstjórinn gaf honum í London.

að var Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn Reykjavíkur til verulegs álitsauka að þeir hlupu ekki til og heimtuðu afsögn Þórólfs Árnasonar borgarstjóra þegar skýrsla Samkeppnisstofnunar um meint samráð olíufélaganna kom út á dögunum. Það þarf ekki að spyrja að því hvort vinstrimenn hefðu látið slíkt tækifæri ónotað ef borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins hefði verið í stöðu Þórólfs. Þá er hætt við að Lúðvík Bergvinsson, Mörður Árnason, Guðmundur Árni Stefánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson hefðu séð sér leik á borði og krafist afsagnar án tafar, með viðeigandi stóryrðum. Vafalaust hefði því verið hnýtt við að Sjálfstæðismenn væru siðblindir með öllu að hafa ráðið slíkan mann til starfa, slíkt liðist hvergi nema hér á landi og Ísland væri bananalýðveldi

Vinstrimenn hafa þó ekki gefið upp alla von um að ná sér í pólitísk prik vegna olíumálsins. Þannig hefur Merði Árnasyni og fleirum þingmana Samfylkingarinnar orðið tíðrætt um „helmingaskipti“ Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á olíumarkaði. Össur Skarphéðinsson kallaði Halldór Ásgrímsson „forsætisráðherra olíufélaganna“ í umræðum á Alþingi. Mörður Árnason kallaði þessa flokka „Shell og Esso-flokkana“ í þætti Egils Helgasonar á Stöð 2 á sunnudaginn. Það er vissulega djörf kenning að um helmingaskipti hafi verið að ræða á íslenskum olíumarkaði. Á markaðinum hafa lengst af starfað þrjú félög sem hafa haft 25 til 40% markaðshlutdeild hvert. En það er þó fyrst og fremst djarft að líta alveg framhjá því að eitt olíufélaganna hafði sterkar og djúpar rætur í stjórnmálaflokki, sem var hvorki Framsóknarflokkur né Sjálfstæðisflokkur.

Í sögu Halls Hallsonar af Olíuverzlun Íslands hf kemur það auðvitað fram sem sanngjarnir menn geta ekki  litið framhjá að fyrirtækið var stofnað af þingmanni Alþýðuflokksins og kratar töldu sig lengi hafa ýmislegt um það að segja hvernig fyrirtækið væri rekið. Kratinn Héðinn Valdimarsson var að vísu andvígur því að aflétta einokun Landsverzlunar á olíuverslun en úr því sem komið var taldi hann réttast að hella sér sjálfur í rekstur olíufélags. Hann gerði það og var stjórnarformaður fyrirtæksins og forstjóri í rúma tvo áratugi. Kommúnistar og arftakar þeirra í Alþýðubandalaginu koma ekki síður við sögu enda stofnaði Héðinn Sameiningarflokk alþýðu – sósíalistaflokkinn með kommúnistum árið 1938.

Olíuverzlun Íslands keypti árið 1947 olíufélagið Nafta sem var í jafnri eigu Einars Olgeirssonar formanns Kommúnistaflokksins og sex annarra einstaklinga. Fékk Einar 100 þúsund krónur fyrir 15 þúsund króna hlut sinn í félaginu. Alþýðublaðinu þótti Einar hafa hagnast óhóflega á sölunni og gagnrýndi Þjóðviljann fyrir að taka til varna fyrir hann. Um þetta sagði Alþýðublaðið:

Ef annar maður hefði átt í hlut, hefði Þjóðviljanum sennilega fundist lítið til um það, þótt slíkir molar hrytu að borðum olíuburgeissins, sem sjálfur stingur þúsundum og tugþúsundum í vasann. En af því það er Einar Olgeirsson, formaður Kommúnistaflokksins, þá er náttúrulega allt öðru máli máli að gegna. Á slíkum manni geta engir „olíublettir“ verið, hversu mörgum hundruðum prósenta sem olíugróði hans hefur numið?

Þótt formaður Kommúnistaflokksins hafi selt Olíuverzluninni hlut sinn í Nafta árið 1947 þegar félagið var komið í þrot var afskiptum formanna Kommúnistaflokksins og arftaka hans af olíufélaginu ekki lokið.

Í ársbyrjun 1968 skipaði Gylfi Þ. Gíslason viðskiptaráðherra og formaður Alþýðuflokksins svonefnda olíunefnd undir formennsku Kjartans Jóhannssonar, verkfræðing og síðar formanns Alþýðuflokksins. Í skipunarbréfi nefndarinnar sagði að hún ætti að „athuga hvort og á hvern hátt unnt sé að auka hagkvæmni í dreifingu og birgðahaldi olíuvöru og m.a. athuga hvaða ráðstafanir sé hægt að gera til að lækka kostnað við innflutning, birgðahald og dreifingu olíuvara með endurskipulagningu rekstursins og auknu samstarfi olíufélaganna.“

Nefndin lagði til að olíufélögin stofnuðu nýtt hlutafélag þannig að allar olíustöðvar víðs vegar um landið yrðu eign hins nýja félags og það annaðist um strandflutningana. Það yfirtæki skuldir olíufélaganna við bankana „að einhverju leyti“ og alla ógreidda olíufarma frá Sovétríkjunum. Hið nýja félag átti að annast um innkaup á olíuvöru til landsins ásamt því að eiga og reka innflutnings- og birgðastöðvar og tankskip til strandflutninga.

Í umræðum á Alþingi um störf olíunefndar haustið 1968 kepptust Gylfi Þ. Gíslason og Lúðvík Jósepsson um að eigna sér tillögu um að ríkið tæki alfarið við innflutningi og sölu olíu á Íslandi en báðir höfðu þeir gegnt embætti viðskiptaráðherra án þess að koma þessu mikla baráttumáli sínu til leiðar. Þingmenn Alþýðuflokksins létu ekki deigan síga þótt ekki rættist úr draumnum um ríkiseinokun á sjöunda áratugnum heldur lögðu þeir fram nýja tillögu þess efnis árið 1972. Er þessi kafli í bókinni lygasögu líkastur. Þarna voru stjórnmálamenn hver um annan þveran að kvarta undan því að olíufélögin hefðu ekki samrekstur á öllum sviðum og hvöttu sumir mjög til þess að hafinn yrði samrekstur á bensínstöðvum úti á landi.

Óli Kr. Sigurðsson heildsali keypti öllum að óvörum meirihluta í Olíuverzluninni árið 1986. Árið 1989 átti Olíuverzlunin í erfiðleikum með að útvega bankaábyrgð vegna olíufarms frá Rússlandi. Stefán Þormar forstöðumaður hjá Alþýðubankanum lýsti því hvernig þau mál voru leyst á fundum sem hann sótti með Óla Kr. Sigurðssyni forstjóra félagsins:

Alþýðubankinn útvegaði ábyrgðir í gegnum Union Bank í Danmörku. Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli Björns Björnssonar bankastjóra. Ég fór oft með Óla á fundi með Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Dagbrúnar, og Lúðvík Jósepssyni, sem þá átti sæti í bankaráði Landsbankans og auk þess átti Óli samtöl við Jón Baldvin Hannibalsson, formann Alþýðuflokksins. Í gegnum Lúðvík vissi Óli hvernig kaupin gerðust á eyrinni innan Landsbankans. Lúðvík reyndi að sporna gegn því að Óli yrði flæmdur úr Olís. Guðmundur Jaki lagði hin þungu lóð Dagsbrúnar á vogarskálarnar innan Alþýðubankans.

Þarna voru sem sagt saman komnir fulltrúar verkalýðshreyfingar, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags í björgunaraðgerðum fyrir Olíuverzlunina; Guðmundur J. frá Dagsbrún, Jón Baldvin formaður Alþýðuflokksins og Lúðvík Jósepsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og fulltrúi flokksins í bankaráði Landsbankans frá 1980 til dauðadags.

Á árum vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar áttu Jón Baldvin og Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra og formaður Alþýðubandalagsins nokkrar lausar stundir frá því að kaupa atkvæði Stefáns Valgeirssonar og Borgaraflokksins og hækka skatta á landsmenn. Þær stundir notuðu þeir meðal annars til að funda með forstjórum fyrirtækja. Hinn 1. mars 1990 sagði Morgunblaðið frá fundi þeirra með Óla Kr. Sigurðssyni forstjóra Olíuverzlunarinnar.

Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið á föstudag að hann og Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, hefðu fyrir nokkru átt fund með Óla Kr. Sigurðssyni forstjóra Olís. Hann sagðist ekki vilja svara því hvort bankaráð eða bankastjórar Landsbankans hefðu setið þennan fund. Ólafur sagði algengt að forsvarsmenn stærri fyrirtækja óskuðu eftir að ræða málefni þeirra við ráðherrann. „Þetta eru í sjálfu sér engin tíðindi,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson. „Það gerist æði oft að menn sem reka fyrirtæki, sérstaklega stærri fyrirtæki, vilja kynna ráðherrum sín mál. Ég hef átt fjölda slíkra funda með forsvarsmönnum slíkra fyrirtækja undanfarna mánuði.“

Þetta blygðunarleysi Ólafs Ragnars kemur mönnum sjálfsagt einkennilega fyrir sjónir í dag enda hafa menn ekki séð það í rúman áratug að biðstofur stjórnmálamanna séu fullar af erindrekum fyrirtækja í leit að aðstoð, meðmælum og fyrirgreiðslu. Eina slíka stofan sem eftir er í landinu er stássstofan á Bessastöðum. Jón Baldvin Hannibalsson fór heldur ekki í grafgötur með afskipti sín af málefnum Olíuverzlunarinnar á þessum árum. Í samtali við bókarhöfund sagði hann meðal annars:

Sem viðskiptautanríkisráðherra skrifaði ég bréf til Olíuverzlunar Íslands. Það var fyrst og fremst til að styðja við bakið á Óla og einnig tók ég á móti erlendum gestum Olíuverzlunar Íslands – olíuforstjórum sem hingað komu vegna viðræðna um kaup á hlutabréfum.

Ekki voru þó öll samskipti utanríkisráðherrans og olíuforstjóranna á alvarlegu nótunum á þessum árum. Forsvarsmenn Olíuverzlunarinnar voru nokkru síðar á ferð í London og fréttu af Jóni Baldvin í borginni og leituðu hann uppi. Segir svo frá í bókinni:

Þeir buðu ráðherranum á barinn. Svo var kallað á leigubíl. Þeir félagar óku með utanríkisráðherrann rakleiðis í hattabúð enda erindið að kaupa forláta hatt sem sæmdi ráðherra. Hattur þessi varð einkennistákn utanríkisráðherra um tíma og mikil umræða spannst um hann. Ekki síst eftir að hatturinn var sleginn á uppboði á skemmtun hjá Alþýðuflokknum.

Þrátt fyrir að Jón Baldvin hefði sagt skilið við vinstri stjórnina vorið 1991 gat hann ekki á sér setið árið 1992 þegar forstjóraskipti voru í aðsigi hjá Olíuverzluninni. Kannski hafði hann ofmetnast af gjöfinni góðu í London en hann setti sig í öllu falli í samband við Gunnþórunni Jónsdóttur sem þá var aðaleigandi félagsins og kom á framfæri sínum óskum um nýjan forstjóra.

Pálmi Kristinsson, verkfræðingur og þáverandi framkvæmdastjóri verktakasambandsins, sóttist eftir starfinu. Jón Baldvin Hannibalsson studdi Pálma dyggilega og talaði máli hans við Gunnþórunni. Hún beindi hins vegar sjónum sínum annað og tók málaleitan formanns Alþýðuflokksins þunglega. Gunnþórunn hafði í huga sveitunga sinn frá Bolungarvík, Einar Benediktsson framkvæmdastjóra Síldarútvegsnefndar.

Eins og sjá má af þessari frásögn taldi formaður Alþýðuflokksins sig hafa eitthvað um það að segja hver yrði forstjóri olíufélagsins árið 1992. Hann hafði ekki erindi sem erfiði að þessu sinni og fátt bendir til að stjórnmálamenn hafi eftir þetta haft mikið um rekstur olíufélaganna að segja. Félögin fóru öll á hlutabréfamarkað og önnur sjónarmið en pólitík urðu ráðandi í rekstri þeirra þótt ríkið hefði áfram mikil afskipti af félögunum með íhlutunum Samkeppnisstofnunar og starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara. Þessi tilraun Jóns Baldvins bendir hins vegar ekki til þess að hann hafi talið olíumarkaðinn í helmingaskiptum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Hér er auðvitað ekki tóm til að rekja þessa sögu alla; hvernig A-flokkarnir, fyrirrennarar Samfylkingarinnar, voru á kafi í olíunni. Hér er farið hratt yfir sögu og mörgum atriðum sleppt, stórum sem smáum. Þeir sem vilja kynna sér þá sögu betur geta lesið bók Halls Hallssonar. Þótt hún sé mikil að vöxtum fer því auðvitað fjarri að hún greini frá öllum þeim afskiptum sem þingmenn krata og kommúnista höfðu af olíuviðskiptum í landinu á síðustu öld. En þær frásagnir sem þar eru ættu að duga til að menn taki ekki ofan hattinn fyrir kjaftagangi þingmanna Samfylkingarinnar um „helmingaskiptin“.

Alvarlegustu afskipti stjórnmálamanna af olíuviðskiptunum á síðustu öld voru auðvitað áratugalöng verðstýring og svo sameiginleg opinber olíuinnkaup frá Sovétríkjunum. Þeim lauk ekki fyrr en eftir að verðlagslögin voru afnumin í tíð fyrstu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Jón Baldvin Hannibalsson og Alþýðuflokksmenn mega eiga það að þeir tóku þátt í því með Sjálfstæðisflokknum að afnema verðlagshöftin. Ólafur Ragnar Grímsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steingrímur Hermannsson, Margrét Frímannsdóttir og Jóhann Ársælsson sáu sér hins vegar ekki fært að styðja það mál. Alþýðuflokksmenn reyndu hins vegar hvað þeir gátu til að koma í veg fyrir að ríkisbankarnir væru seldir frá stjórnmálamönnunum. Eftir að Samfylkingin var stofnuð reyndu þingmenn hennar áfram að koma í veg fyrir einkavæðingu bankanna með öllum ráðum. Sjálfstæðisflokkurinn þurfti atbeina Framsóknarflokksins til að koma bönkunum undan pólitíkusunum.

Upprifjun þessa máls sýnir þó fyrst og fremst hversu fólk er fljótt að gleyma. Það er með miklum ólíkindum að lesa hvernig stjórnmál, ríkisbankar og viðskipti voru fléttuð saman um áratuga skeið fyrir daga ríkisstjórna Davíðs Oddssonar.

Til er mikil vísindastofnun, „Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands“, og hefur nokkurra námskeiða hennar verið getið hér í blaðinu. Eins námskeiðs hefur þó ekki verið getið að ráði og er leitt til þess að vita. Fyrir nokkru hélt endurmenntunarstofnunin námskeið um „forystuhlutverk stjórnenda í opinberum rekstri“, og er það vafalaust ein undirgreina leiðtogafræði, sem er mikil vísindagrein. Á námskeiðinu komust þátttakendur í feitt, því kennari var sjálfur Marty Linsky, „kennari við Harvard háskóla, J.F. Kennedy School of Government“. Til kynningar sendi endurmenntunarstofnunin frá sér bækling þar sem merkir menn sögðu frá kynnum sínum af Linsky og hvernig hann hefði breytt lífi þeirra. Meðal þessara manna var Magnús Pétursson forstjóri ríkisspítalanna. Vitnisburður hans hljómaði svo:

Í hópi ráðuneytisstjóra átti ég þess kost að taka þátt í námskeiði sem Marty Linsky leiddi. Marty er einkar eftirminnilegur maður og afbragðs kennari. Honum er einkar lagið að fá fólk til að þess að setja sig í spor annarra og vekja áhuga fólks á því að stjórnun fyrirtækja eða stofnana er hlutverk sem menn taka að sér. Ýmsir eiginleikar eru mönnum áskapaðir í þessu tilliti en aðrir áunnir. Það fer enginn ósvikinn af námskeiði hjá Marty Linsky.

Þetta eru góðar ábendingar hjá Magnúsi og bera Linsky gott vitni. Það er mjög mikilvægt að tekist hafi að fá hingað mann sem vekur áhuga fólks á því að stjórnun fyrirtækja eða stofnana er hlutverk sem menn taka að sér. Það er rangt – rangt – sem margir halda að menn séu þvingaðir til að stýra stofnunum eða fyrirtækjum. Þetta eru, eins og Marty Linsky getur útskýrt á aðeins einni viku, hlutverk sem menn taka að sér. Þá er rétt að vekja athygli á því að þetta á ekki við um fyrirtæki og stofnanir , heldur, eins og Magnús bendir á, fyrirtæki eða stofnanir. Það er ekki enn vitað hvort þetta á við um fyrirtæki eða stofnanir, en nýjustu rannsóknir Linskys hafa útilokað aðra möguleika. Innan tíðar mun lokaniðurstaða svo verða gerð kunn, en þó enn. Þetta eru afar mikilvæg námskeið fyrir stjórnendur, eða eins og Magnús segir: Það fer enginn ósvikinn af námskeiði hjá Marty Linsky.

Og að þessu sögðu er lokið þátttöku Vefþjóðviljans í degi íslenskrar tungu að þessu sinni.