Mánudagur 5. apríl 2004

96. tbl. 8. árg.
Það er ljóst, að ríkur vilji var til þess innan læknadeildar að víkja [x] úr starfi vegna ætlaðra ávirðinga hans. Það bar þá að gera í samræmi við ákvæði VI. kafla laganna, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, svo að hann fengi notið þeirrar réttarverndar, sem ríkisstarfsmönnum er þar tryggð. Þar sem svo var ekki gert var brotinn réttur á [x] og varðar það aðaláfrýjanda þegar af þeirri ástæðu bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996.
-Úr dómi Hæstaréttar Íslands, upp kveðnum 18. mars 2004 í máli nr. 275/2003
Mikill munur er á því að segja að fullyrðingar séu ekki byggðar á neinum rökum og að segja að rökin séu ekki fullnægjandi eða ekki gild að mati álitsgjafa. Hið síðara hefðu stefndu hæglega getað sagt í álitinu, en gerðu ekki. Ummæli stefndu eru röng og meiðandi fyrir áfrýjanda og til þess fallin að skerða fræðimannsheiður hans. Með þeim gerðust stefndu brotleg við 234. gr. almennra hegningarlaga og ber að ómerkja ummælin samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna.
– Úr dómi Hæstaréttar Íslands, upp kveðnum 25. mars 2004 í máli nr. 382/2003

L eiðir tveggja opinberra stofnana, Hæstaréttar Íslands og Háskóla Íslands, lágu tvívegis saman í síðasta mánuði, ef svo má segja. Hinn átjánda mars komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands hefði brotið réttindi eins prófessors síns verulega með því hvernig skólinn stóð að því að svipta hann stöðu sinni. Var háskólinn dæmdur til að borga prófessornum fjórar milljónir króna vegna þessa. Viku síðar dæmdi Hæstiréttur dauð og ómerk ummæli í áliti sem dómnefnd hafði gefið um mann er sótti um kennslustarf við heimspekideild Háskólans, enda væru þau röng og meiðandi og líkleg til að skerða fræðimannsheiður mannsins, eins og það er orðað.

Hvorugur dómurinn hefur vakið mikil opinber viðbrögð. Þó væri hægt, ef einhver vildi, að hafa þá til marks um að ekki væri allt eins og það ætti að vera innan Háskóla Íslands – eða þá Hæstaréttar ef menn eru ósamþykkir dómunum. Menn geta til dæmis ímyndað sér hvernig látið væri ef það væri ekki Háskóli Íslands heldur einhverjir aðrir sem þyrftu að borga milljónir fyrir ólögmæta uppsögn. Ef ráðherra hefði rekið undirmann sinn og fengi svo slíkan dóm. Eða ef ummæli ráðherra í rökstuðningi fyrir stöðuveitingu þættu röng og meiðandi og yrðu dæmd dauð og ómerk. Ætli það myndi ekki kalla á utandagskrárumræðu á Alþingi þar sem Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn krefðust þess að landsdómur yrði kallaður saman og í útvarpsþættinum Speglinum kæmi auk þess fram að í öllum þeim löndum þar sem Svanur Kristjánsson þekkir til væri ráðherrann búinn að segja af sér.

Jú sennilega myndi eitthvað slíkt heyrast. En þegar Háskóli Íslands á í hlut þá gerist ekkert. Enginn heimtar að rektor snúi sér bara aftur að heimspekinni. Enginn krefst þess að neinn „axli ábyrgð“, svo notaður sé þekktur frasi. Og allt í lagi með það; það á ekki alltaf að vera að heimta slíkt. Það að gera mistök er ekki endilega neinn stórglæpur. Menn eru alltaf að klúðra einhverju. Erlendur mannréttindadómstóll dæmir íslenska ríkið til milljóna bótagreiðslna vegna einhvers dóms Hæstaréttar Íslands. Hæstiréttur ómerkir héraðsdóm af því að þar er ekki tekið á rökum málsaðila. Héraðsdómur vísar máli frá af því lögmaður gat ekki sett saman skiljanlega stefnu. Háskólinn er bótaskyldur um milljónir króna af því að hann fór rangt að því að reka mann. Dómnefnd missir stjórn á sér í stóryrðum og heilu setningarnar í faglegu áliti hennar eru dæmd dauð og ómerk ósannindi. Svona gerist einfaldlega af og til og ekki endilega ástæða til að vera alltaf með upphrópanir og forsíðufyrirsagnir út af því. Ekki frekar en þegar blaðamenn fara rangt með nöfn eða málavexti, sem sumir virðast þó gera á hverjum einasta degi.

En þó að ekki þurfi að vera ástæða til að vera með stóryrði út af málum eins og þessum, þá minna þessir dómar Hæstaréttar – að því gefnu að þeir séu ekki þeim mun meiri vitleysa sjálfir – á þá staðreynd að það er ekki nokkur trygging fyrir „fagmennsku“ þó svo kallaðir fræðimenn eigi í hlut. Er yfirleitt nokkuð sem nú á dögum þykir faglegra en hlutlaus dómnefnd sem metur umsækjendur? Þar er nú víst ekki spillingin eins og alltaf er ef pólitíkus kemur nálægt nokkru máli. En svo eru bara heilu setningarnar úr hinu faglega dómnefndaráliti dæmd ómerk.

Staðreyndin er sú að „fagmennska“ allra „fagmannanna“ er stórlega ofmetin. Þeir, rétt eins og til dæmis stjórnmálamenn, eru einfaldlega fólk af holdi og blóði, fólk sem á sín huldu markmið, hefur hagsmuni, á vini, óvini og allt það sama og aðrir. Munurinn er sá að stjórnmálamennirnir eiga pólitíska andstæðinga og hafa auk þess gapandi fjölmiðlamenn yfir sér, hvora tveggju óðfúsa að finna eitthvað til að setja út á störf stjórnmálamannsins. Það eru stjórnmálamennirnir en ekki „fagmennirnir“ sem eru undir smásjá og þrýstingi og má af því gera sér nokkra vísbendingu hvor hópurinn er í raun líklegri til að fara illa með það vald sem honum er falið. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að sem mest af því valdi sem hinu opinbera er falið – sem vitaskuld á að vera sem allra minnst – sé fremur í höndum kjörinna fulltrúa en ókosinna „fagmanna“.