M arkaðsbrestur er orð sem stundum er gripið til þegar menn koma auga á vanda á borð við fátækt tiltekinna ríkja, eða tiltekinna hópa fólks innan ríkjanna. Það verður þó að segjast eins og er að þegar grannt er gáð er markaðsbrestur í besta falli vandfundinn í raunveruleikanum, en hann er algengur í hugum þeirra sem hafa of mikla trú á ríkisvaldinu. Þegar menn telja sig hafa komið auga á markaðsbrest er yfirleitt um að ræða misskilning og bresturinn – sé hann þá yfirleitt fyrir hendi – er í raun ríkisbrestur. Þetta stafar oft af því að ríkið hefur gripið til einhverra aðgerða, iðulega til að bregðast við neikvæðum afleiðingum fyrri aðgerða sinna. En stundum stafar þetta af öðrum ástæðum, nefnilega þeim að ríkið hefur brugðist með aðgerðarleysi. Tíðum lesendum þessa rits kann að koma á óvart að því sé haldið fram að ríkið geti brugðist með aðgerðarleysi, því ríkið fær oftar ákúrur fyrir of mikla framtakssemi en of litla, enda eru þess fá dæmi hér á landi eða annars staðar á Vesturlöndum að ríkið sinni ekki helstu skyldum sínum. Líklega væri réttara að segja einu skyldum sínum, en fram hjá því verður ekki litið að þar sem menn búa við einhvers konar ríkisvald hlýtur það að hafa ákveðnum frumskyldum að gegna.
„Kenningar de Soto áttu ekki upp á pallborðið hjá þessum vinstrisinnuðu hryðjuverka- mönnum, sem reyndu að myrða hann með því að sprengja upp skrifstofur hans og skjóta á bíl hans.“ |
Frumskyldurnar eru hins vegar ekkert í líkingu við þau verkefni sem hið opinbera hér á landi hefur tekið að sér. Hér má til dæmis sjá hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, reisa íþróttahallir um allt land til að sumir geti skemmt sér á kostnað annarra, og það jafnvel í samkeppni við einkaaðila. Og svo þurfa landsmenn að verða vitni að því að horfa upp á yfirvöld, í þessu tilfelli borgaryfirvöld, þrasa um það hvort leyfa eigi sölu á léttu áfengi í einni af höllunum. Þarna er hið opinbera greinilega komið langt út fyrir hlutverk sitt og í algerar ógöngur. Hið opinbera lendir einnig í ógöngum þegar það reynir að hafa áhrif á það hvar á landinu íbúarnir setja sig niður, enda er það ákvörðun sem hver maður ætti að taka án íhlutunar ríkisins, byggðastefnunnar svokölluðu. Þá má nefna að ríkið ætti að hætta afskiptum af því hvort foreldranna annast börnin eða hvernig verkaskiptingin yfirleitt er á heimilum landsmanna. Þetta er nokkuð sem engum utan viðkomandi fjölskyldu kemur við og ríkið teygir sig langt út fyrir eðlilegt hlutverk sitt með slíkum afskiptum.
En ríkið getur sem sagt líka gert of lítið og það á við þegar það bregst einhverju af fáum grundvallarhlutverkum sínum. Eins og áður sagði er þetta afar óalgengt vandamál hér á landi, en í ýmsum löndum hefur ríkið látið undir höfuð leggjast að sinna skyldu sinni. Þau lönd má þekkja úr á tiltölulega auðveldan hátt, því að þetta eru þau ríki sem almennt er litið á sem fátækari ríki heimsins. Sá maður sem líklega hefur lagt mest af mörkum til að benda á þennan ríkisbrest er Hernando de Soto frá Perú. Fyrir um 35 árum kom de Soto aftur heim til Perú, þá 38 ára gamall, eftir að hafa náð góðum árangri í viðskiptum í Evrópu. Við heimkomuna stofnaði hann fyrirtæki en rakst þá á ótrúlegt skrifræði. Hann fékk lögfræðinga til að skoða lagaumhverfið og þeir fundu meðal annars út að yfirvöld í landinu höfðu sett 28.000 lög og reglugerðir á hverju ári frá stríðslokum. Fyrir venjulegt fólk var skrifræðið, til dæmis í tengslum við stofnun fyrirtækja, í raun óyfirstíganlegt. Hann fór að velta því fyrir sér hvað ylli fátæktinni heima fyrir og ákvað að helga sig lausn á þessu viðfangsefni og hefur ásamt fjölda annarra unnið að því síðan á vegum stofnunar sinnar, Instituto Libertad y Democracia. De Soto taldi að landar sínir væru ekkert öðruvísi en fólk í löndum þar sem lífsgæði væru meiri. Framtakssemi þeirra væri ekki minni en annarra, en það sem vantaði væri rétt umhverfi, það er að segja þær stofnanir samfélagsins sem gera fólki mögulegt að nýta krafta sína til fulls. Það sem de Soto sá að vantaði helst var skilgreindur eignarréttur til að fólk gæti nýtt sér eigur sínar, sem væru í raun talsverðar en nýttust ekki sem skyldi þar sem þær nutu ekki lagaverndar og voru til að mynda ekki nothæfar sem veð vegna lántöku.
Hernando de Soto varð þekktur um allan heim þegar hann árið 1986 ritaði bókina The Other Path. Eins og einhverjum kann að detta í hug er titillinn vísun í The Shining Path, Skínandi stíg, vinstrisinnuð hryðjuverkasamtök sem léku Perú grátt á þessum árum. Kenningar de Soto áttu ekki upp á pallborðið hjá þessum vinstrisinnuðu hryðjuverkamönnum, sem reyndu að myrða hann með því að sprengja upp skrifstofur hans og skjóta á bíl hans. Skýringin á þessari óvild í garð de Soto var vitaskuld sú að kenningar hans gengu þvert á kenningar þeirra um að eignarrétturinn væri skaðlegur. Sem betur fer lifir de Soto en Skínandi stígur ekki.
Á seinni árum hefur de Soto rannsakað aðstæður mun víðar en í Perú og hann hefur verið fenginn til ráðgjafar við þjóðarleiðtoga í fátækum löndum víða um heim, það er að segja í þeim fátæku löndum þar sem einhver vilji er til umbóta. Og hann hefur skrifað aðra bók. Árið 2000 kom út bókin The Mystery of Capital, þar sem fjallað er um, eins og segir í undirtitli bókarinnar, hvers vegna kapítalisminn hafi sigrað á Vesturlöndum en hvergi annars staðar. Í bókinni er meðal annars tekinn fjöldi dæma um ótrúlegar hindranir í vegi eignarréttarins í fátæku ríkjunum.
Auk þeirra bóka sem hér hafa verið nefndar hefur de Soto ritað fjölda greina í blöð og tímarit. Ein þeirra birtist í International Herald Tribune fyrir rúmum þremur árum og hefst þannig:
Ímyndaðu þér land þar sem enginn getur fengið staðfest hver á hvað, ekki er með góðu móti hægt að staðfesta heimilisföng, ekki er hægt að knýja fólk til að greiða skuldir sínar, auðlindum er ekki með auðveldum hætti hægt að breyta í fé, eignarhaldi er ekki hægt að skipta niður í hluti, lýsing á eignum er ekki stöðluð og ekki er auðvelt að bera eignir saman, og reglurnar sem lúta að eignum breytast frá hverfi til hverfis eða jafnvel á milli gatna. |
Þú hefur sett þig inn í lífið í þróunarríki eða fyrrverandi kommúnistaríki. Eða nánar tiltekið, þú hefur sett þig inn í líf 80% landsmanna, sem eru jafn aðskilin frá vestrænni elítu landsins og svartir og hvítir í Suður-Afríku voru áður aðskildir með aðskilnaðarstefnunni. |
Hernando de Soto heldur áfram og segir að þrátt fyrir að þessi 80% virðist fátæk, þá eigi þau í raun mun meiri eignir en nokkurn hafi grunað. Hann vísar í rannsóknir stofnunar sinnar og fjölda annarra, sem hafi farið til þróunarríkjanna og kannað aðstæður þar. Niðurstaðan sé sú að þeir sem séu undir meðaltekjum í þessum ríkjum hafi þegar orðið sér úti um allar þær eignir sem nauðsynlegar séu. Verðmæti sparnaðar þeirra séu gífurleg, margföld þróunaraðstoð og erlend fjárfesting frá árinu 1945. Í Egyptalandi séu eignir hinna fátæku 55 sinnum meiri en öll erlend fjárfesting frá upphafi, þar með talið Súes-skurðurinn og Asvan-stíflan. Hann spyr hvers vegna þetta fólk sé þá svo illa statt og hvers vegna það geti ekki nýtt eignir sínar til að verða sér úti um fjármagn til að framleiða meiri auð. Hann svarar því til að ef fjármagn, svo sem fasteignir, eigi að gera gagn í verðmætasköpun, verði það að vera skráð og hafa þannig ákveðna stöðu. Eignir flestra utan Vesturlanda séu ekki til á pappírum. Mesti munurinn á New York og Jakarta segir hann ekki vera hátækni á borð við faxtæki og sjónvörp, margir í þróunarríkjunum eigi slíka hluti. Munurinn felist aðallega í lagaumhverfi eignarréttarins og á Vesturlöndum séu menn orðnir svo vanir þessu fyrirkomulagi að þeir taki ekki eftir því.
Í ljósi þess að eignarrétturinn er ein helsta ástæða þess að Vesturlönd og þau ríki sem tekið hafa upp stofnanir Vesturlanda eru rík en önnur ekki, er mikilvægt að Vesturlandabúar standi vörð um eignarréttinn og nýti hann á sem flestum sviðum. Um leið er að sjálfsögðu mikilvægt að þeir geri eins og Hernando de Soto og bendi þróunarríkjunum á hvar skórinn kreppir. Í stað þess til dæmis að berjast fyrir sífellt auknum framlögum til þróunarríkjanna, mættu þeir sem hafa samúð með þeim hvetja þau til að byggja upp nauðsynlegar stofnanir samfélagsins, sem myndu auðvelda ríkjunum að brjótast út úr fátæktinni.
Hernando de Soto hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir starf sitt á síðustu áratugum. Eina þeirra fékk hann í liðinni viku þegar hann vann Milton Friedman-verðlaunin fyrir að stuðning við aukið frelsi. Cato-stofnunin veitir verðlaunin annað hvert ár og nema þau hálfri milljón Bandaríkjadala.