Fimmtudagur 1. maí 2003

121. tbl. 7. árg.

Ídag er fyrsti maí um land allt! Með þessari réttmætu ábendingu hóf hafnfirskur verkalýðsforkólfur eitt sinn ræðu sína og uppskar meira hí en þegar Sigurði Grímssyni hafði fundist hann finna til, nokkrum árum áður. En þó var ekkert rangt við þessi óvenjulegu upphafsorð, öðru nær, þau voru réttari en margt það sem fyrr og síðar hefur verið sagt við meiri fögnuð við svipuð tækifæri. Og þau eru eflaust réttari en margt það sem hrópað verður á útifundum í dag, fundum sem vitaskuld verður útvarpað á kostnað skattgreiðenda. Þannig má gera ráð fyrir að skipulega verði talað um „fátæktina“ sem Samfylkingarforystan hefur hamrað á linnulaust undanfarnar vikur við miklar undirtektir grátklökkra fréttamanna svokallaðra. Og þó, það er kannski ekki víst. Því af einhverjum orsökum þá datt fátæktin skyndilega út úr umræðunni á dögunum.

Á dögunum kom út bók sem nefndist Fátækt á Íslandi og var eftir Hörpu Njálsdóttur. Samfylkingin tók henni opnum örmum og Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi fjármálaráðherra boðaði fréttamenn á sinn fund og bað þá verða vitni að því er honum var afhent eintak af bókinni. Við það tækifæri upplýsti dr. Ólafur að bók þessi, Fátækt á Íslandi, væri ein albesta fræðibók sem hann hefði nokkru sinni lesið, og sést af þessu að auk annarra og alþekktra hæfileika sinna þá er Ólafur Ragnar Grímsson einnig Norðurlandameistrari í hraðlestri sveina. Og í nokkra daga var bók Hörpu kynnt sem sérstakt helgirit félagsvísindanna, fréttamenn héldu henni mjög á lofti og ekki ómerkari fræðimaður en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir líkti henni við Biblíuna. Og þessa dýrðardaga voru allir fjölmiðlar fullir af fátæktinni. Svo gerðist það hins vegar að nokkrir menn gerðu það sem hvorki Ólafur Ragnar, Ingibjörg Sólrún né svokallaðir fréttamenn landsins hafa gert. Þeir lásu bókina. Þá kom það í ljós, eins og rakið var hér í Vefþjóðviljanum á dögunum að „vaxandi ásókn til hjálparstofnana vegna fátæktar hafi m.a. aukist eftir að Félagsþjónustan í Reykjavík þrengdi verulega heimildarbætur, m.a. skyndiaðstoð/neyðaraðstoð sem verið hafði til fjölda ára, þ.e. eftir breytingar á starfsreglum 1995.“

Biðraðir Mæðrastyrksnefndar, þessar sem Samfylkingin og Ólafur Ragnar hafa notað í áróðri sínum, þær reyndust að mati Hörpu Njálsdóttur hafa aukist vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét skerða neyðaraðstoð við fólk „verulega“. Og það var eins og við manninn mælt, um leið og þetta varð opinbert þá misstu fréttamenn gersamlega áhugann á fátækt á Íslandi. Harpa Njálsdóttir hvergi nefnd lengur og vafamál hvort hún hafi nokkru sinni verið til.

ÍÍ gær sagði Vefþjóðviljinn frá þeirri vinstri stjórn sem mynduð verður á Íslandi eftir tvær vikur nema fjölmargir þeirra, sem nú hyggjast kjósa einhvern umræddra flokka, Samfylkingu, Frjálslynda flokkinn eða Vinstri-græna, hætti við það og kjósi einhvern annan flokk. En það er ekki aðeins að þessir fersku og virtu þingmenn sem nefndir voru í gær séu líkleg ráðherraefni. Ýmsir þingmenn þessara flokka munu raða sjálfum sér í feit embætti, enda hefur það löngum verið siður íslenskra krata. Síðast þegar kratar, Alþýðuflokkurinn, sátu í ríkisstjórn á Íslandi, 1991-1995, þá hvarf tæpur þriðjungur þingmanna flokksins á vit bitlinga og embætta, eins og Karl Steinar Guðnason forstjóri Tryggingastofnunar, Eiður Guðnason sendiherra og Jón Sigurðsson seðlabankastjóri gætu vottað ef einhver spyrði þá. Guðmundur Árni Stefánsson hvarf reyndar líka úr embætti á þessum árum, en það var af öðrum ástæðum.

En semsagt ýmsir þingmenn munu eflaust ná góðum bitum ef svo fer fram sem horfir og vinstri stjórn tekur við stjórnartaumum. Ef Gunnar Örlygsson verður ekki dómsmálaráðherra þá verður hann eflaust forstjóri fangelsismálastofnunar; Helgi Hjörvar verður skattstjóri og Gísli S. Einarsson tollstjóri. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir verður forstjóri Íslandspósts og mun sem slíkur bæta Íslandsmet sitt í pólitískum póstsendingum fyrir opinbert fé, en Sverrir Hermannsson snýr aftur sem bankastjóri Blóðbankans og mun leigja bankanum slagæð á vægu verði. Einar Karl Haraldsson mun hins vegar áfram gegna bæði starfi biskupsritara og forsetaritara og er í því fólgin hagræðing sem forsetanum þykir dýrmæt en biskupi hálfgerð græðgi.

En til að ekki verði tómir þingmenn ráðnir til feitra embætta verður fljótlega tilkynnt að Svanur Kristjánsson hafi tekið að sér að semja áramótaspá Vikunnar framvegis. Munu allir hans spádómar rætast, eins og við er að búast.