Miðvikudagur 30. apríl 2003

120. tbl. 7. árg.

Það er kominn tími til að breyta. Það er vor í lofti. Tími breytinganna. Nýir vendir sópa best. Ferska og fríska takk. Verðum að fá á nýtt blóð. Það er ekki eins og þær séu innihaldslausar klisjunar sem streyma frá auglýsingastofu Samfylkingarinnar þessa dagana.
Við síðustu þingkosningar fór Jóhanna Sigurðardóttir fyrir Samfylkingunni í Reykjavík og lýsti því yfir að hún væri „fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar“. Nú fer hún fyrir Samfylkingunni í Reykjavíkurkjördæmi syðra og er engin ástæða til að ætla að hún hafi slegið af kröfum um áhrifamikinn ráðherrastól. Ekki mun hún þó verða fjármálaráðherra í yfirvofandi vinstri stjórn, því þar sem vinstri grænir munu ekki fá utanríkisráðuneytið verður Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Og þarf þá ekki að hafa fleiri orð um skattalækkanir. Össur Skarphéðinsson verður utanríkisráðherra og mun tryggja að Ísland njóti virðingar á alþjóðavettvangi, Mörður Árnason verður svo menntamálaráðherra og mun bregða Birtu sinni yfir mannlífið. Þetta er allt mjög ferskt fólk. Jóhanna Sigurðardóttir hefur þannig setið á þingi í aldarfjórðung. Steingrímur Sigfússon hefur setið samfleytt síðan hann var 27 ára gamall. Og það er langt síðan það var. Þegar Steingrímur J. Sigfússon settist á þing var Andropov nýorðinn leiðtogi Sovétríkjanna, það var langt í Chernenko og enginn hafði heyrt Gorbatshovs getið. Nýir vendir sópa best.
En á mynd gæti stjórn breytinganna litið svona út. Samfylkingin, Vinstri-grænir og Frjálslyndi flokkurinn hafa allir lýst því yfir að þeir stefni að þessu stjórnarsamstarfi svo ekki skiptir máli hver þeirra er kosinn; þessi ríkisstjórn fæst því með því að kjósa hvern þessara flokka sem er.

Ríkisstjórn breytinganna

Fjármálaráðherrann
Steingrímur J. Sigfússon
  
Utanríkisráðherrann
Össur Skarphéðinsson
Dómsmálaráðherrann
Gunnar Örlygsson
Umhverfisráðherrann
Kolbrún Halldórsdóttir
Menntamálaráðherrann
Mörður Árnason
  
Samgönguráðherrann
Jóhann Ársælsson
Forsætisráðherrann
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Sjávarútvegsráðherrann
Guðjón Arnar Kristjánsson
Viðskiptaráðherrann
Ögmundur Jónasson
Landbúnaðarráðherrann
Jón Bjarnason
Heilbrigðisráðherrann
Guðmundur Árni Stefánsson
Félagsmálaráðherrann
Jóhanna Sigurðardóttir