Æer þetta ekki dæmigert? Þá loksins fréttamenn láta eins og eitthvað sé athugavert við stjórn höfuðborgarinnar þá eru það alger aukaatriði sem eiga hug þeirra allan. Eða hvað er eiginlega búið að segja margar fréttir af því að vegna klúðurs og eftirlitsleysis við framkvæmdir þá muni það tefjast um eina viku eða tvær að hefja kennslu í Klébergsskóla á Kjalarnesi? Jújú, eflaust eitthvert klúður hjá borgarkerfinu að hafa ekki fylgst betur með framkvæmdum eða öllu heldur framkvæmdaleysi við skólann og sjálfsagt er þetta óþægilegt fyrir foreldra sem hafa treyst á að geta komið krökkum sínum í geymslu í Klébergsskóla, en hvað eiga þessar látlausu fréttir að þýða? Hvaða máli skiptir þetta eiginlega? Gott og vel, kannski eðlilegt að segja frá þessu einu sinni og stuttlega, svona svo fólk hafi hugmynd um það hvort skólar séu almennt opnir eða lokaðir, en daglegar fréttir í tæpa viku er nú heldur mikið af því góða. Dramatískir fréttamenn tala nú á hverjum degi um að börn á Kjalarnesi missi eina viku eða tvær úr skólagöngu sinni og láta eins og það skipti nokkru máli. Eða dettur einhverjum í hug að ein eða tvær vikur til eða frá ráði neinum úrslitum? Krakki þarf ekki annað en leggjast í flensu til að missa annað eins úr skóla, og engum dettur í hug að það sé tiltökumál.
Fréttamenn hafa meira að segja sagt frá því að einhverjir undirbúningsfundir skólastjórans og kennaranna í Klébergsskóla fari nú fram á skólaskrifstofunum í miðborginni en ekki í skólanum sjálfum. Einn fréttamaðurinn var meira að segja búinn að reikna fjarlægðina milli fundarstaðarins og skólans upp á kílómetra, svona eins og kennarnir væru niðri í bæ en skólastjórinn uppi á Kjalarnesi og svo væri kallað á milli. Þessar látlausu fréttir af opnun eða ekki opnun Klébergsskóla eru dæmigert þvaður sem engan varðar um en á greiða leið í allt of tíða íslenska fréttatíma. Og minnihlutinn í borgarstjórn er kominn á stað og bókar nú að seinkun skólastarfs í Klébergsskóla sé enn ein sönnun þess að R-listinn sé með allt niður um sig. Reyndar hafa fréttamenn að mestu látið kjörin borgaryfirvöld í friði en krafið embættismenn sagna, en engu að síður virðist minnihlutinn telja hér komið mál sem geti nýst í baráttunni. Og hver getur svo sem láð minnihlutanum það? Minnihlutinn hefur árum saman reynt að vekja athygli á öllum þeim stóru málum sem borgaryfirvöld hafa klúðrað. Skuldastaða Reykjavíkurborgar er gríðarlega slæm. Fyrirtæki hennar tapa ótrúlegum fjárhæðum, Lína.net ein og sér til dæmis tæplega tveimur milljörðum króna. Biðlistar sem átti að eyða, þeir hafa lengst. Skattar sem átti að lækka, þeir hafa hækkað. Og svo framvegis.
Og þegar aðalatriðin vekja enga athygli fjölmiðlamanna eða meirihluta kjósenda, er þá nema von þó menn snúi sér að aukaatriðunum í von um að þau nái kannski í gegn.