Fimmtudagur 22. ágúst 2002

234. tbl. 6. árg.

TERRORISTEftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum fyrir tæpu ári fór sú kenning víða að hryðjuverkamenn séu yfirleitt fátæklingar sem í vonleysi og örvæntingu grípa til örþrifaráða. Þessi kenning hljómaði nú reyndar ekki betur eftir að í ljós kom að auðkýfingurinn Osama Bin Laden stóð að baki ódæðinu og Mohamed Atta sem sá um að framkvæma það var egypskur miðstéttarmaður.

Í Wall Street Journal í gær er sagt frá rannsókn sem hagfræðingarnir Alan Krueger og Jitka Maleckona við National Bureau of Economic Research gerðu á tengslum fátæktar og hryðjuverka. Niðurstaða þeirra er að sambandið sé öfugt: Þeir líbönsku, palestínsku og ísraelsku hryðjuverkamenn sem þau skoðuðu eru ríkari og betur menntaðir en hinn almenni maður úr umhverfi þeirra.

Rannsóknin nær meðal annars til 129 „píslarvotta“ Hezbollah sem létust á árunum 1982 til 1994. Hagfræðingarnir komust að því að „það er vera yfir fátæktarmörkum eða hafa gagnfræðapróf eða meiri menntun eykur líkur á því að menn gangi til liðs við Hezbollah“. Þeir finna svipuð tengsl meðal palestínskra sjálfsmorðssprengjumanna og ísraelskra landnema sem réðust á Palestínumenn á Vesturbakkanum upp úr 1980. Og hryðjuverk eru ekki tíðari í efnahagslægðum en uppsveiflu.