Fimmtudagur 11. október 2001

284. tbl. 5. árg.

Á mánudaginn fjallaði Vefþjóðviljinn um þá ósk forsvarsmanna Leikfélags Íslands ehf. að ríkið og Reykjavíkurborg styrktu fyrirtækið fjárhagslega á næstu árum. Munu Leikfélagsmenn óska eftir að eftir nokkur misseri verði slíkur styrkur kominn í 40 milljónir króna á ári, og væru not af „Iðnó“ falin inni í því. Eins og lesendur vita, eða geta ímyndað sér, þá var Vefþjóðviljinn – og er – á þeirri skoðun að hið opinbera eigi að hafna slíkum óskum. Vefþjóðviljinn er þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi sem mest að stilla sig um að nota skattfé til að styðja atvinnurekstur, hvort sem hann er fólginn í leiksýningum, tónleikum, handboltaleikjum, laxeldi eða öðru. Að ekki eigi að neyða borgarana til að niðurgreiða leikhúsmiða heldur eigi að leyfa þeim að ráðstafa eigin peningum að vild sinni.

Og Vefþjóðviljinn er enn sömu skoðunar. Hitt er svo annað mál að óskir þeirra Leikfélagsmanna eru á margan hátt skiljanlegar. Eins og sjálfsagt allir vita eru rekin leikfélög í landinu sem njóta gríðarlegra opinberra styrkja og við þau félög þurfa þeir að keppa sem vilja freista þess að reka sjálfstæð leikfélög – eða aðra afþreyingu. Og aðstaðan er vægast sagt ójöfn. Leikfélag Íslands, svo dæmi sé tekið, hóf starfsemi fyrir sjö árum. Á þessum sjö árum hafa, samkvæmt upplýsingum Vefþjóðviljans, Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur fengið um 4.500 milljónir króna í rekstrarstyrki og mun húsnæði þá ekki vera talið með. Og styrkir þessir fara hækkandi. Þá má nefna að Björn Bjarnason hefur nýlega gert sérstakan „samning“ við forsvarsmenn Íslensku óperunnar þess efnis að framlög skattgreiðenda til óperunnar stóraukist á næstu árum. Allir vita svo um ofstækisfulla baráttu nokkurra samsærismanna fyrir ríkisbyggðri tónlistarhöll og svo mætti lengi telja. Við þessar aðstæður verður auðvitað mun erfiðara en ella fyrir einstaklinga og fyrirtæki að keppa við hina opinberu list.

Ríkisstuðningur við ákveðin leikfélög, ákveðnar listgreinar eða ákveðin áhugamannafélög verður auðvitað sérstaklega erfiður fyrir þá sem hyggjast keppa á sama markaði. En hann skerðir í raun möguleika flestra annarra sem hyggjast bjóða upp á þjónustu sína. Sá sem fer í niðurgreidda ríkisóperu, hann gerir fátt annað á meðan. Hann er ekki heima að lesa bók eða horfa á myndband. Hann fer ekki á miðilsfund, fluguhnýtinganámskeið eða skákmót það kvöld. Hann fer ekki einu sinni snemma að sofa. Og þó.

Verstur er ríkisstuðningurinn þó fyrir skattgreiðendur. Þeir eru neyddir til að sjá af hluta af eigum sínum til þess að gera einhverjum öðrum auðveldara að sinna sínu áhugamáli. Og þó að skattgreiðandinn hafi sem því nemur minna fé til að njóta sinna eigin áhugamála, þá gæti menningarliðinu bara ekki verið meira sama.

Og af því Vefþjóðviljinn nefndi hér áðan nýgerðan „samning“ menntamálaráðherra við forsvarsmenn Íslensku óperunnar þá er rétt að nefna eitt smáatriði. Þessi „samningur“ var gerður „með fyrirvara um samþykki Alþingis“. Vefþjóðviljinn heitir á alþingismenn að taka nú í eitt skipti almenna skattgreiðendur fram yfir sérhagsmunahóp og hafna þessum „samningi“. En sjálfsagt mun enginn þeirra hafa döngun í sér til þess. Og hvenær hefur fjármálaráðherrann sett sig upp á móti auknum útgjöldum?