Föstudagur 12. október 2001

285. tbl. 5. árg.

„Báðir stjórnarflokkarnir eru því fylgjandi að í næsta áfanga [skattalækkana] verði eignarskattar á fólk og fyrirtæki algjörlega afnumdir. Þeir skattar ættu því að heyra sögunni til innan fárra ára.“, sagði Davíð Oddsson í setningarræðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins í gær. Vefþjóðviljinn hefur við ýmis tækifæri mælt sérstaklega fyrir afnámi eignarskatta. Ýmsir aðrir hafa ekki gert það. Til dæmis Marx og Engles í ávarpi nokkru hér um árið en þar birtu þeir lítinn óskalista þar sem þessi fjögur atriði voru efst á blaði:

1. Eignanám á lóðum og lendum, en jarðrentan falli til þarfa ríkisins.
2. Háir og stighækkandi skattar.
3. Afnám erfðaréttarins.
4. Eignir allra flóttamanna og uppreisnarmanna verði gerðar upptækar.

Þeir félagar vildu jafnframt „ná öllum eignum borgarastéttarinnar í áföngum“. Segja má að íslenska ríkið hafi fram til þessa uppfyllt þessar óskir þeirra hvað eignaupptöku varðar. Það hefur verið gert með eignaskatti sem jafngilti því að á einni mannsævi voru allar eignir manna gerðar upptækar. Nú hafa eignaskattarnir hins vegar verið lækkaðir þannig að tvær kynslóðir geta notið eigna áður en ríkið hirðir þær. Og ef stefna stjórnarflokkanna nær fram að ganga mun stefna þeirra Marx og Engels loks láta í minni pokann.

Davíð rökstuddi skattalækkanir m.a. með eftirfarandi orðum: „Við erum þess fullvissir að ríkissjóður mun vel þola þessar breytingar vegna góðrar stöðu sinnar og sífellt minnkandi vaxtabyrði, eins og ég áðan nefndi. Það er einnig margföld reynsla að sanngjarnir skattar skila sér betur í ríkissjóð en freklegir skattar. Sanngjörn skattheimta hvetur fólk og fyrirtæki til dáða, svo skattstofninn stækkar smám saman fyrir vikið svo ríkissjóður fær á endanum jafnmiklar og stundum meiri tekjur en var þegar skattar voru hvað ósanngjarnastir.“