Svonefnt Alþýðusamband Íslands hefur kvartað nokkuð undan því að ríkisstjórnin hafði ekki „samráð“ við sambandið vegna fyrirhugaðra skattalækkana. Nú myndu vafalaust einhverjir telja það fráleita hugmynd að ræða skattalækkanir við Alþýðusamband Íslands. Baráttumál sambandsins hafa enda undantekningarlítið snúist um að auka útgjöld hins opinbera og hækka þar með skatta í bráð og lengd. En látum það vera. Ef til vill mun sambandið einhvern tímann ljá máls á skattalækkunum. Það getur allt gerst.
Það er hins vegar annað sem gera má athugasemd við vegna kvartana ASÍ um að ekki hafi verið haft „samráð“. Hvers vegna ætti nokkurt stjórnvald að hafa samráð við ASÍ um nokkurn skapaðan hlut? Er ASÍ lýðræðislegt félag með mörg þúsund félagsmenn sem gengu í sambandið og aðildarfélög þess af fúsum og frjálsum vilja og greiða með mikilli ánægju allt að 2% af ráðstöfunartekjum sínum í félagssjóð? Nei, reyndar ekki. ASÍ og aðildarfélög þess taka þessi gjöld af félagsmönnum sínum forspurðum. Og það er ekki nóg með það. ASÍ og fylgihnettir ákveða einnig í hvaða lífeyrissjóð félagsmenn greiða og þessir sjóðir eru svo notaðir til að kaupa stjórnarsæti í fyrirtækjum handa verkalýðsforingjunum. Félagsgjöldin eru einnig nýtt í pólitískan áróður, það er svo sjálfsagt að enginn tekur lengur eftir því. Félagsmönnum er jafnvel gert að byggja sumarbústaði, reka líkamsræktarstöðvar og ferðaskrifstofur. Ekki má gleyma einkennilegum ferðum verkalýðsrekendanna til Mosku á meðan kommúnisminn stóð þar í blóma. Og þegar félaganna í Moskvu naut ekki lengur við tók Brussel við sem mikilvægur áfangastaður ábúðarfullra foringja á faraldsfæti.
En það er ef til vill ekki það versta að ASÍ taki fé af fólki forspurðu og eyði því á sérkennilegan hátt. Það versta er að forkólfar þess látast tala í nafni alls þess fólks sem er þvingað til aðildar að þessum samtökum.