Eins og lesendum er kunnugt telur Vefþjóðviljinn að starfsmenn Ríkisútvarpsins nýti ýmis tækifæri til að koma pólitískum áróðri inn í dagskrána. Þess vegna vill Vefþjóðviljinn taka fram, að hann telur ekki að það hafi verið í þeim tilgangi að kynna hinn einkennilega félagsskap, Samtök um þjóðareign, sem kvikmyndin Aulabárður var höfð á dagskrá Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi.
Í þættinum Stutt í spunann í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi var leitað álits Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á íslensku dægurlagi, Prumpulagi Gunnars Hjálmarssonar. Ingibjörg hafði það að segja um lagið að þar væri fjallað um tabú sem maður ræðir ekki nema í hópi jafnaldra. Jæja já, loksins veit maður út á hvað r-lista fundirnir ganga…
Guðrún Ágústsdóttir og Svavar Gestsson voru í hjartnæmum viðtalsþætti síðastliðið mánudagskvöld í sjónvarpi ríkisins. Þar kom fram að Guðrúnu þykir þau Svavar afar rösk og koma miklu í verk á heimilinu þrátt fyrir annríki í opinberum störfum. Fleira gladdi eyru og augu áhorfenda, þar á meðal að þau hjónin væru mikið hugsjónafólk. Hugsjónirnar eru númer eitt, tvö og þrjú í pólitíkinni að þeirra sögn og lögðu þau ríka áherslu á að þeim þætti afar ánægjulegt að færa þær fórnir sem hugsjónirnar krefjast. Þau nefndu sérstaklega að sú fórn að eiga aðeins eina bifreið væri ekki erfið heldur ætti sinn þátt í að gefa lífinu gildi. Gert var mikið úr þessu atriði en með því að eiga aðeins einn bíl telja þau sig hafa lagt sitt af mörkum til verndar umhverfinu.
Mikið er nú indælt fyrir landsmenn, sér í lagi Reykvíkinga, að vita til þess að þau hjónakornin komist af með einn bíl sakir hugsjónaelds. En það skyldi þó ekki vera að það hjálpaði að annað þeirra er forseti borgarstjórnar og grípur til bíls og bílstjóra borgarinnar þegar á þarf að halda og einn bíll á heimili dugar ekki? Ætli það gæti verið að fleiri hjón létu sér nægja einn bíl – jafnvel bara til að spara fé, en ekki endilega af brennandi hugsjón – ef vinnuveitandi annars útvegaði bíl þegar þess er óskað?
Það er sjálfsagt ekki við þáttargerðarmann sjónvarpsins að sakast þótt hann hafi ekki vitað að Guðrún hefur aðgang að bíl Reykjavíkurborgar. Erfitt er að sannreyna allt sem viðmælendur segja. Og það er ekki heldur við áhorfendur að sakast sem trúðu því í blindni að hjónin æku aðeins einum bíl af hreinni hugsjón. Það er hins vegar töluvert við það að athuga þegar kjörnir fulltrúar reyna, jafnvel í heimilislegum spjallþætti, að blekkja kjósendur og draga upp aðra mynd af sér en hina réttu.