Þrátt fyrir yfirtöku Kínverja fær Hong Kong hæstu einkunn fyrir efnahagslegt frelsi á árinu 1997 í skýrslunni The Economic Freedom of the World sem unnin er á vegum fjölmargra rannsóknarstofnana víðs vegar um heimin þ.á.m. Hagfræðisstofnunar Háskóla Íslands. Í skýrslunni er ástand 25 atriða kannað í 119 löndum svo sem umsvif ríkisins, peningamál, viðskiptahömlur, styrkur eignarréttar o.s.frv. Efnahagslegt frelsi samkvæmt skýrslunni felst í valfrelsi einstaklinganna og öruggum eignarrétti.
Þegar einkunnir einstakra landa eru bornar saman við þær einkunnir sem þau fengu árið 1990 má sjá að einkunn Nýja-Sjálands hefur hækkað úr 8,8 í 9,2, Japan hefur lækkað úr 8,4 í 8,3 og ýmis ríki Suður-Ameríku hafa tekið stór stökk upp á við eins og Argentína úr 4,8 í 8,7, El Salvador úr 4,5 í 8,2 og Perú úr 3,6 í 7,6. Skýrslan sýnir mikla fylgni á milli efnahagslegs frelsis og hagsældar. Í löndunum í efsta fimmtungi könnunarinnar er landsframleiðsla á mann 18.142 dalir og hagvöxtur 1,84%. Þar sem einkunnin lækkaði dró einnig úr hagvexti. Þau 20% ríkja sem sitja á botninum hafa að meðaltali 1.538 dala landsframleiðslu á mann og hagvöxtur er -2,10%.
Einkunn Íslands hefur hækkað úr 7,1 árið 1990 í 7,7 í fyrra. Engu að síður fellur Ísland úr 24. í 34. sæti þar sem mörg önnur lönd hafa aflétt viðskiptahömlum og dregið úr ríkisumsvifum af meiri myndarskap en við. Þetta á ekki síst við um ýmis ríki Suður-Ameríku. Sem fyrr fáum við 10 í einkunn fyrir vernd eignarréttar og fyrir öryggi í viðskiptum. Afskipti ríkisins af fjármálamarkaði sem einkum birtist í eignarhaldi ríkisins á fjármálastofnunum dregur okkur niður. Einkunn okkar fyrir frelsi á fjármálamarkaði er 5.9 en sú einkavæðing sem fer fram þessa dagana mun væntanlega bæta stöðu okkar í framtíðinni. Það ófrelsi sem enn er við lýði í landbúnaði og milliríkjaviðskipum okkar með landbúnaðarafurðir dregur einkunn Íslands einnig niður.