Mánudagur 9. nóvember 1998

313. tbl. 2. árg.

jonsig.jpg (5401 bytes)
jonsig.jpg (5401 bytes)

Í gærkvöldi var sýndur þáttur í Ríkissjónvarpinu um Jón Sigurðsson forseta og afstöðu hans til frjálsrar verslunar. Þar voru tíndar til ýmsar tilvitnanir í Jón þar sem hann færði rök að því að þjóðum farnaðist best ef þær hefðu frelsi til að skipta á þeim vörum sem þær væru aflögufærar um og fá í staðinn þær vörur sem þær helst skorti. Er rétt sem bent var í þættinum að þessar skoðanir Jóns á mikilvægi frelsis í alþjóðaviðskiptum hafa fallið í skuggann af baráttu hans fyrir sjálfstæði Íslendinga. Þó má slá því föstu að Jón hafi einmitt talið það mjög mikilvægt fyrir sjálfstæði þjóðarinnar að hún hefði fullt verslunarfrelsi.

Höfundur handrits þáttarins gekk þó sennilega of langt í túlkun sinni á skoðunum Jóns þegar hann lét að því liggja að Jón hefði nú verið stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sú skoðun fer þó vart saman við helsta áhugamál Jóns sem var sjálfstæði Íslendinga. Má jafnvel gera ráð fyrir því að hann hefði haft efasemdir um EES samninginn og því valdaframsali sem í honum felst. Hefði hann viljað loka okkur innan tollmúra ESB þar sem smásmugulegar reglugerðir og tilskipanir eru settar um hvert handtak í framleiðslu og viðskiptum? Varla ef marka má þau orð hans sem flutt voru í þættinum í gær. Er ekki einmitt líklegra að Jón hefði talið rétt að halda öllum dyrum opnum fyrir verslun við útlönd?

Gerhard Schröder kanslari Þýskalands greinir frá því í Bild am Sonntag í gær að gera beri fólki kleift að fara á eftirlaun við sextíu ára aldur. Tilgangur þessarar ráðstöfunar á að vera sá að auka atvinnumöguleika ungs fólks, en mikið atvinnuleysi er í Þýskalandi, sérstaklega á meðal ungs fólks. Tvennt er aðallega við hugmyndir af þessu tagi að athuga:

Annars vegar verður að líta til þess að þróunin er sú að sífellt færri eru að vinna og halda uppi sífellt fleirum. Þetta er sérstakt vandamál í löndum eins og Þýskalandi þar sem ellilífeyriskerfið er þannig upp byggt að menn leggja í raun ekki fyrir til elliáranna, heldur treysta á að kynslóðin sem á eftir kemur greiði ellilífeyrinn með sköttum. Til að setja þetta í sögulegt samhengi má vísa til nýlegrar úttektar The Economist á almannatryggingakerfum. Þar er bent á að þegar „járnkanslari“ Prússa, Otto von Bismarck, kom upp opinberum ellilífeyri fyrir þá sem náð höfðu 65 ára aldri var meðalævi fólks 45 ár. Nú eru meðalævilíkur í OECD 76 ár og þó setja menn fram hugmyndir um að færa mörkin neðar en þau voru í upphafi.

Hins vegar verður að gera athugasemd við þær hugmyndir að „lausnin“ á atvinnuleysi eins manns felist í að koma öðrum manni af vinnumarkaðnum. Þjóðverjar hafa oft velt upp slíkum hugmyndum og framkvæmt sumar þeirra að einhverju leyti, t.d. með því að stytta vinnuvikuna. Þó er vandi Þjóðverja ekki sá að of margir vilji vinna, heldur frekar að hið opinbera þvælist um of fyrir atvinnulífinu með alls kyns reglum um flest sem stjórnmála- og embættismönnum hefur dottið í hug síðustu áratugi. Um þetta virðast flestir sem þekkingu hafa á efnahags- og atvinnuástandi Þýskalands sammála, þeirra á meðal Gerhard Schröder eins og lesa mátti í viðtölum við hann fyrir kosningar. En gömlu úreltu „lausnirnar“ virðast því miður handhægari og auðseljanlegri í hrossakaupunum á hinu pólitíska markaðstorgi.