Varaformaður Sambands einkarekinna leikskóla í Reykjavík, Kristinn Ingi Jónsson, ritar grein í Morgunblaðið síðastliðinn þriðjudag þar sem hann gagnrýnir yfirvöld Reykjavíkurborgar fyrir að mismuna leikskólum eftir því hvort þeir eru einkareknir eða á hendi borgarinnar. Segir hann frá því að einkareknir leikskólar fái mun lægri niðurgreiðslur heldur en leikskólar borgarinnar og komi þetta niður á frjálsu vali foreldra hvað leikskóla varðar. Undir þetta má taka, því vissulega er óeðlilegt að borgin hygli þeim leikskólum sem hún rekur og skekki þannig þá kosti sem foreldrar standa frammi fyrir þegar þeir senda börn sín á leikskóla. Raunar er engin ástæða fyrir borgina að reka leikskóla, því þetta er eitt af því sem einstaklingar og félög þeirra eru fullfær að sjá um.
En þegar þau rök eru færð fyrir sömu niðurgreiðslum til einkarekinna leikskóla og leikskóla hins opinbera að fólk eigi að hafa frjálst val, hlýtur þeirri hugsun að skjóta upp í kollinn að til að val fólks – bæði í leikskólamálum og öðrum – sé raunverulega frjálst, þurfi að ganga töluvert lengra. Val er ekki raunverulega frjálst þegar búið er að takmarka þá kosti sem fólk hefur. Vitaskuld er skárra að hafa tvo kosti en einn, en best væri að hafa alla þá kosti sem mögulegir eru. Til að ná því marki verður að hætta niðurgreiðslum leikskóla, lækka skatta sem því nemur og leyfa fólki svo að ráða hvað það gerir við þessa aura sína. Sumir munu sjálfsagt kaupa þjónustu leikskóla en aðrir vilja ef til vill gera annað við sitt fé. Og ef svo er, þá er það þeirra frjálsa val.
Í fyrradag var vímuefnavandinn ræddur á Alþingi. Ekki stóð á þingmönnum að viðra skoðanir sínar á þeim málum frekar en fyrri daginn. Streymdu þeir í pontu og vildu margir auka fjárframlög hins opinbera til baráttunnar gegn vímunni þótt vandi vegna vímuefna(bannsins) virðist vaxa hér sem annars staðar í hlutfalli við útgjöld til þessara mála! Páll Pétursson félagsmálaráðherra bað þá þingmenn vinsamlegast um að benda á hvar taka ætti það fé. Varð lítið um svör hjá þeim þingmannaskara sem tjáð hafði sig um málið. Því miður er það alltof algengt á Alþingi að lagðar séu fram tillögur um aukin útgjöld án þess að geta þess hvaðan peningarnir eiga að koma. Ekki er annað hægt en að líta á slíkar tillögur sem innantómt glamur.