Fimmtudagur 5. nóvember 1998

309. tbl. 2. árg.

Ögmundur Jónasson hefur verið býsna laginn við að misnota BSRB í pólitískum tilgangi. Það nýjasta er að hann er farinn að auglýsa gegn tilteknum framleiðendum og innflytjendum bjórs, þ.e. þeim sem auglýsa vörur sínar. Menn geta út af fyrir sig haft ýmsar skoðanir á því hvort rétt er eða löglegt að auglýsa bjór, en það getur varla leikið á því vafi að þær greiðslur sem félagsmenn BSRB eru neyddir til að afhenda Ögmundi eru ekki hugsaðar til að hann geti barist fyrir sínum persónulegu áhugamálum. Eða dettur nokkrum í hug að það séu sérstakir sameiginlegir hagsmunir BSRB félaga að bjór sé ekki auglýstur?

Á Alþingi var í fyrradag rætt um breytingar á ýmsum skattalögum og þarf ekki að koma á óvart að fyrirhugaðar breytingar eru ekki allar til góðs. Ein hljómar sakleysislega, ártalið 1999 í tiltekinni lagagrein skal verða að 2004, en afleiðingarnar eru verulegar. Breytingin snýst um að framlengja svokallaðan Þjóðarbókhlöðuskatt um þessi fimm ár. Þessi skattur var í upphafi kynntur til fjármögnunar tilteknu verkefni sem nú hefur verið lokið við, en eins og aðrir slíkir hefur hann lifað lengur en fyrirhugað var í upphafi. Nú rökstyður fjármálaráðherra, Geir H. Haarde,  þessa skattahækkun með því að hún geri þjóðinni kleift að standa af myndarskap að viðhaldi menningarverðmæta. Þeir sem vilja viðhalda háum sköttum eða leggja á nýja, skjóta sér vitaskuld alltaf á bak við lítt umdeild markmið á borð við þetta, og er það að álíka miklu hafandi nú sem fyrr.

Þjóðarbókhlöðuskatturinn svokallaði er eignarskattsauki upp á 0,25% og kemur sérstaklega illa við aldraða, sem oft búa í stóru skuldlausu húsnæði en hafa litlar tekjur. Pétur Blöndal alþingismaður benti á það í þessum umræðum að eignarskattur hér á landi væri verulega hár og að hann þýddi að fólk væri svift eignum sínum á 70 ára fresti. Auk þess sagði hann að auðvelt væri að sleppa við þessa skatta með löglegum hætti ef menn hefðu þekkingu til, því hægt væri að taka lán og kaupa fyrir þau spariskírteini ríkisins. En það er eðli sértækra skatta og flókinna skattkerfa, að þeir sem þekkingu hafa og klóka endurskoðendur, sleppa yfirleitt mun betur en meðaljóninn sem borgar í blindni það sem upp er sett.

Annar þingmaður, Sigríður Jóhannesdóttir úr eftirhreytum Alþýðubandalags, hafði töluvert önnur sjónarmið en Pétur Blöndal í skattamálum á þinginu í gær. Taldi hún slæmt að nú væri að „skella ᓠþjóðinni tekjuskattslækkun einstaklinga og var sérstaklega slegin yfir því að til stæði að létta byrðar fyrirtækja. Hún er þeirrar skoðunar að skattar eigi ekki að lækka heldur þurfi þeir að hækka. Þetta er sama sjónarmið og formaður hennar, Margrét Frímannsdóttir hefur haldið fram að undanförnu, og er fagnaðarefni að kjósendur þurfa ekki að velkjast í vafa um stefnu samfylkingarsinna Alþýðubandalagsins fyrir kosningarnar í vor.