Einkavæðing símaþjónustu hér á landi er heldur betur komin á dagskrá. Halldór Blöndal samgönguráðherra hefur að undanförnu ítrekað lýst yfir vilja sínum til að selja hlutafé ríkisins í Landsíma Íslands hf. sem stofnaður verður um áramótin. Um er að ræða stefnubreytingu hjá ráðherranum, en henni ber að sjálfsögðu að fagna.
Ráðherra lýsir hinni breyttu afstöðu sinni í Degi-Tímanum á föstudag. Þar var eftirfarandi haft eftir honum: „…það er almenn krafa um það í þjóðfélaginu að auka frelsi í fjarskiptum og almenn krafa um það að hlutabréf í Landsímanum verði seld. Ég hef orðið mjög var við það síðustu vikur. Menn voru að tala um einokun og vilja ekki að ríkið sé atkvæðamikill aðili í samkeppnisrekstri.“
Síðar í viðtalinu er svo haft eftir ráðherra: „Það er alveg ljóst að fyrirtæki í nútímalegu samkeppnisumhverfi getur ekki verið milli vita, hvorki hrein ríkisstofnun né einkafyrirtæki. Þessi stutta reynsla sem við höfum af Pósti og síma hf. hefur sannfært mig um að þetta gengur ekki.“
Full ástæða er til að taka undir þessi orð samgönguráðherra. Þegar ákvarðanir voru upphaflega teknar um stofnun Pósts og síma hf. voru ýmsir aðilar í þjóðfélaginu sem bentu á að miklu skynsamlegra væri að stíga skrefið til fulls og einkavæða fyrirtækið heldur en að skilja það eftir „milli vita“, eins og ráðherra orðar það. Ráðherra hefur sætt mikilli gagnrýni frá frjálslyndum mönnum fyrir það hvernig staðið hefur verið að ýmsum þáttum í sambandi við breytingar á rekstrarformi fyrirtækisins, einkum með tilliti til þess hvernig fyrirtækið hefur nýtt sér sérstakar aðstæður sínar til að ryðjast inn á nýja markaði og keppa við einkaaðila. Hefur ráðherra einkum verið gagnrýndur fyrir að taka ávallt upp hanskann fyrir Póst og síma þegar slíkur ágreiningur hefur komið upp. Frjálslyndir menn hljóta nú hins vegar að fagna því að ráðherra hefur í grundvallaratriðum fallist á sjónarmið þeirra og vænta þess jafnframt að hann taki til hendinni þegar eftir áramót og hefji undirbúning á sölu hlutabréfanna.
Eins og alþjóð veit hafa Jóhannes Gunnarsson og Vilhjálmur Ingi Árnason neytendafrömuðir deilt ákaflega og hvor um sig krafist þess að hinn láti af störfum hjá Neytendasamtökunum. Vef-Þjóðviljinn kann ekki við að gera upp á milli slíkra spekinga og lýsir þar af leiðandi yfir sérstökum stuðningi við hvora tveggju.