Föstudagur 28. nóvember 1997

332. tbl. 1. árg.

Eins og við minntumst á í gær, hefur Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins kvartað yfir því að R-listinn hafi mjög skaðað flokkstarf Framsóknarfokksins í Reykjavík. Jæja já, segiði svo að R-listinn sé alslæmur.
 

Þessa dagana sýnir Laugarásbíó kvikmyndina Wilde sem er um írska skáldið Oscar Wilde. Myndin er hin prýðilegasta skemmtun. Stephen Fry fer með aðalhlutverkið en hann er þekktastur fyrir að leika þjóninn Jeeves í samnefndum sjónvarpsþáttum. Myndin fjallar framan af um samlíf Wildes með konu sinni annars vegar og ungum mönnum hins vegar auk sigra hans á ritvellinum, en þegar sígur á seinni hlutann fara fordómar samfélagsins að angra Wilde og vegna hugmynda um að ríkið eigi að hafa afskipti af einkamálum fólks hneppa fulltrúar þess skáldið í fangelsi. Um reynslu sína í prísundinni skrifar Wilde hið fallega en átakanlega kvæði The Ballad of Reading Gaol eða Kvæðið um fangann eins og það nefnist í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Í myndinni er m.a. vitnað í eftirfarandi erindi:

Ég dæmi ei lög vor rétt né röng
og rýni ei þeirra skrár.
Í prísund vitum vér það eitt,
að veggurinn er hár,
að þar er ár hver dægurdvöl,
og dægrin löng það ár.

Myndin minnir okkur á hvaða afleiðingar það getur haft þegar meirihlutinn beitir ríkisvaldinu fyrir sig til að troða siðferðisvitund sinni upp á minnihlutann. Þetta er enn ein afleiðing áráttu sumra manna að dæma alla menn eftir t.d. litarhafti, kynferði eða kynhneigð. Slíkt hefur orðið til þess að löggjafinn hefur víða sett reglur sem snúa að kynlífi sjálfráða einstaklinga, t.d. með banni við vændi.