Þriðjudagur 13. desember 2011

Vefþjóðviljinn 347. tbl. 15. árg.

Auglýsingar vegna jólanna ná bráðum hámarki. Meðal furðulegustu auglýsinga þetta árið er sú sem Samtök iðnaðarins birta nú á hverjum degi. Hún er ekki flókin: Veljum íslenskt.

Það er auðvitað ekkert að því að hvetja fólk til að velja íslenskar vörur. En síðan hvenær hafa Samtök iðnaðarins valið íslenskt? 

Vilja þau að íslensk lög gildi á Íslandi? Íslenskar reglur? Vilja þau að æðstu stjórnvöld í landinu séu íslensk? Vilja þau íslenskt fullveldi? Vilja þau að íslenskar reglur en ekki útlendar gildi um auðlindir á, í og við Ísland?

Samtök iðnaðarins hafa árum saman verið í ofstækisfullri baráttu fyrir því að koma Íslandi inn í evrópska stórríkið sem færir stöðugt út kvíarnar. Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir því að Ísland afsali sér stórum hluta af fullveldi sínu, því að það geti hentað stundarhagsmunum einhverra iðnfyrirtækja. Samtök iðnaðarins berjast fyrir því að fyrirmæli ókosinna erlendra embættismanna verði æðstu lög um íslensk málefni á Íslandi.

Þeir sem þannig standa blygðunarlaust að málum og verja til þess fjölda starfsmanna og háum fjárframlögum árum saman, ættu ekki að reyna líka að snapa sér viðskipti með því að höfða til vilja margs venjulegs fólks til að velja frekar innlendan varning.

Ef einhverjir ættu að hlusta á skilaboðin „Veljum íslenskt“ og breyta í framhaldi um starfshætti, þá eru það Samtök iðnaðarins.

Kannski vilja þau að venjulegu fólki verði einn daginn nóg boðið og að það bindist samtökum um að kaupa ekki íslenskan iðnvarning þar til þessari áróðurssíbylju Samtaka iðnaðarins lýkur.