Miðvikudagur 14. desember 2011

Vefþjóðviljinn 348. tbl. 15. árg.

Meiri lýsing og næg bílastæði í hrunhöllinni. Á móti er sparað í götulýsingu í borginni og bílastæðum í íbúahverfum fækkað.
Meiri lýsing og næg bílastæði í hrunhöllinni. Á móti er sparað í götulýsingu í borginni og bílastæðum í íbúahverfum fækkað.

Síðustu daga hafa vegfarendur hjá útrásarhöllinni helst haldið að Evrópumótið í ljósritun væri hafið þar innandyra. Búið er að auka lýsinguna í húsinu og hún flöktir eins og skíma frá ljósritunarvél á fullum dampi. Samkvæmt fréttum er þó um að ræða sérhannað ljóslistaverk, sem er án efa mjög mikið afrek séð af sjónarhóli þeirra sem til þekkja í heimi æðri lista. 

Þetta framtak verður seint fullþakkað og sennilega aldrei fullgreitt.

Fyrir nokkrum misserum ákvað Reykjavíkurborg hins vegar að lækka orkukostnað sinn með því að draga verulega úr götulýsingu í bænum.

Öryggi vegfarenda er ofmetið fyrirbæri. 

Vegfarendur veita því einnig athygli að samkvæmt tilkynningum á vegaskiltum eru jafnan um 495 bílastæði laus undir útrásarbautanum. Enginn vill geyma bílinn sinn í menningarbílskúr borgarstjórnar. Á sama tíma neyta borgaryfirvöld allra ráða til að fækka bílastæðum í íbúahverfum og við verslunargötur þar sem þeirra er raunveruleg þörf. Í samræmi við þessa stefnu íhuga borgaryfirvöld að falla frá hugmyndum um bílastæðahús við hina væntanlegu gríðarlegu sjúkrahúsbyggingu ríkisins utan í Þingholtunum og reisa frekar veglegt skýli fyrir reiðhjól.

Þarna er vissulega lag því margir viðskiptavinir sjúkrahúsa eru nú þegar á hjólum, þótt handknúin séu.