Vefþjóðviljinn 178. tbl. 19. árg.
Á sjónvarpsstöðvum undanfarið hefur í auglýsingatímum mátt sjá heldur uppburðarlítinn og tötrum klæddan mann gefa sig á tal við höfðingja í betri holdum. Vesalingurinn ber upp þá ósk að fá laun fyrir vinnu sína en hinn svarar að hann sé „þræll“ og eigi engin laun að fá.
Þetta er auglýsing frá Alþýðusambandi Ísland sem margir kannast einnig við sem ASÍ.
Sjálfsagt á þetta að vera sniðugt.
En þrælahald með allri sinni viðurstyggð er það ekki.
Íslenskir launamenn eru raunar eins langt frá því að vera þrælar og nokkur hópur launafólks hefur nokkru sinni verið.
Það eina sem gæti skort á frelsi þeirra er að þurfa að greiða félagsgjöld til stéttarfélaga til að fá starf í ýmsum fyrirtækjum.