Helgarsprokið 28. júní 2015

Vefþjóðviljinn 179. tbl. 19. árg.

Óli Björn Kárason varaþingmaður ritaði eina af sína ágætu greinum í Morgunblaðið á miðvikudaginn var undir yfirskriftinni „Gjafmildi og rausnarskapur stjórnmálamanna“.

Stjórnmálamenn eru gjarnir á að vera gjafmildir. Að vísu er gjafmildin fremur fyrir annarra manna fé en þeirra eigið. Á stundum vilja þeir sýna víðsýni sína og umburðarlyndi með örlæti sínu en oft eru þeir aðeins að afla sér stuðnings ákveðinna hópa kjósenda með rausnarskap þótt reikningurinn sé greiddur af skattgreiðendum.

Örlæti stjórnmálamanna leiðir oftar en ekki til ófarnaðar hvort heldur er í fjármálum sveitarfélaga eða ríkisins. Gjafmildi alþingismanna hefur þannig orðið til þess að við höfum misst sjónar á því hvert raunverulegt hlutverk ríkisins eigi að vera í samfélaginu. Afleiðingin er sú að umsvif ríkisins aukast stöðugt en um leið er dregið úr bolmagni þess til að sinna grunnhlutverki sínu.

Það er, í besta falli, öfugsnúið að þeir sem hæst tala um öflugt heilbrigðiskerfi skuli um leið grafa undan því með gjafmildi sinni í eitthvað allt annað á sama tíma og barist er við fjárskort. Með svipuðum hætti veikja þeir, sem í ræðu og riti berjast fyrir öflugu almannatryggingakerfi, þegar þeir telja nauðsynlegt að verja takmörkuðum fjármunum ríkisins í ýmislegt annað en grunnstoðirnar. Þannig má lengi telja.

Svo veik Óli Björn að nýjasta rausnarskap þingsins:

Í andrúmslofti örlætis á annarra manna fé og í samkeppni um hylli einhverra kjósenda koma þingmenn saman og etja kappi hver við annan. Fáir skorast undan – en þeir eru þó til sem betur fer.

Alþingi samþykkti á sérstökum hátíðarfundi 19. júní að stofna Jafnréttissjóð Íslands í tilefni af því að öld var liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Allir þingmenn, fyrir utan einn, voru sammála um að láta árlega 100 milljónir króna næstu fimm árin renna til sjóðsins frá skattgreiðendum.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stóð ein gegn tillögunni sem var flutt sameiginlega af formönnum allra stjórnmálaflokka á þingi.

Í fyrri umræðu um þingsályktunina (16. júní) rökstuddi Sigríður afstöðu sína og sagði meðal annars:

„Ég ætla auðvitað ekki að tala fyrir hönd allra kvenna eða nokkurra annarra en bara sjálfrar mín, en það er nú mín skoðun að virðingu kvenna sé enginn sérstakur sómi sýndur með þingsályktunartillögu af þessu tagi sem sendir 500 milljóna króna reikning til skattgreiðenda, sem ég leyfi mér nú að minna á að eru um helmingur konur.“

Sigríður taldi rétt að allir tækju þátt í að fagna tímamótunum en þingsályktunin væri ekki „neitt annað en enn eitt ríkisútgjaldamálið“:

„Í tillögunni er lagt til að verulega háum fjármunum sé deilt út með afar ómarkvissum hætti í ýmis verkefni sem þarna eru talin upp á sama tíma og fé vantar í mörg nauðsynleg verkefni sem ég veit að er jafnvel þverpólitísk samstaða um að ráðast þurfi í.“

Þingmaður þarf sterk pólitísk bein til að andmæla einn tillögu sem formenn allra flokka hafa sameinast um í tilefni af merkum tímamótum.

Og eins og Óli Björn rekur með ýmsum dæmum í grein sinni er jafnréttissjóðurinn fjarri því að vera eina dæmið frá þessu þingi um rausnarskap á kostnað annarra.

Hugmyndafræðin sem liggur að baki tillögunni er hugmyndafræði örlætis og raunarskapar á kostnað annarra. Tillagan er birtingarmynd þess rétttrúnaðar sem hefur náð að skjóta rótum innan allra stjórnmálaflokka.

Umrædd þingsályktun er langt í frá að vera eina dæmið um hvernig þingmenn og þingflokkar reyna að gera út á skattgreiðendur. Litlu virðist skipta hvort um frumvörp eða þingsályktunartillögur er að ræða. Flest þingmál eru til þess að auka útgjöld, fjölga reglum og herða eftirlit.