Vefþjóðviljinn 180. tbl. 19. árg.
Það er ekki víst að allir viti að einn af æðstu mönnum landsins undanfarin ár er anarkisti. Svo segir hann sjálfur.
Jón Gnarr Kristinsson skrifar vikulega í Fréttablaðið og nýjasta greinin er undir fyrirsögninni „Anarkismi“. Þar segist Jón vera anarkisti og hafa verið lengi. Anarkisminn sé ekki fullkomið þjóðfélagsform en hann hafi ekki fundið neitt betra.
Allt er þetta prýðilegt hjá Jóni Gnarr. Og að sjálfsögðu er óþarfi að spyrja hvort hugur fylgir máli, þegar þessi höfundur á í hlut. Hver einasti kjósandi, þrjátíu og fimm ára og yngri, getur í svefni sem vöku farið með setninguna „Jón Gnarr er svo einlægur“, svo um það þarf ekki að efast.
Margir kalla sig anarkista á einhverju skeiði ævinnar. Sumir gera það oft og lengi og af einlægri sannfæringu. Fínt hjá þeim. En um Jón gildir að einu mjög mikilvægu leyti öðru máli en flesta hina sem kalla sig anarkista.
Um fjögurra ára skeið var Jón einn allra valdamesti maður landsins. Hann var borgarstjóri í höfuðborginni og fór þar fyrir stjórnmálaflokki sem hann stofnaði sjálfur og mótaði að eigin vild. Sjaldan eða aldrei hefur nokkur maður verið í slíkri stöðu til að láta að sér kveða.
Og hvernig var nú Reykjavík stjórnað þegar anarkistinn var borgarstjóri? Jú, með hefðbundnum vinstrihætti. Útsvarið fór í hámark. Borgarkerfið varð auðvitað að fá sem mesta peninga frá íbúum sínum. Skattheimtu var því haldið í hámarki en peningum veitt í ýmis gæluverkefni, nefndir og starfshópa. Hvað ætli borgaryfirvöld hafi gert til að auka frelsi borgaranna? Leyfa þeim jafnvel að reka starfsemi sem hugsanlega færi í bága við skoðanir borgaryfirvalda? Fækka leyfum sem fólk þarf að sækja um og hvetja ríkið til lagabreytinga í sömu átt? Liðka til? Minnka skriffinnsku?
Ja, borgaryfirvöld heimtuðu að fólk hefði ruslatunnurnar á réttum stað á lóðinni hjá sér. Og að íbúarnir gættu þess að setja rétt rusl í rétta tunnu. Annars yrði ekki tæmt. Það er þó eitthvað.
En auðvitað er Jón anarkisti. Hann segir það sjálfur.