Föstudagur 26. júní 2015

Vefþjóðviljinn 177. tbl. 19. árg.

Nú verða aldeilis mótmæli. Það verða útifundir. Fréttamenn munu fara hamförum. Þeir munu rekja kosningaloforðin sem gefin voru og sýna „efndirnar“. Stjórnarandstöðuþingmenn munu tryllast. Fólk verður sárt. Það vill ekki svona vinnubrögð. Nú fer það og kýs Pírata.

Ríkisstjórnin var að ákveða að veiðigjöld verði hækkuð um 12% og verði 9,6 milljarðar á næsta ári.

En stjórnarherrarnir munu komast að því að fólk er ekki búið að gleyma loforðunum. Fyrir kosningar lofuðu menn, ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn, að lækka veiðigjöldin. Frambjóðendur kynntu þetta á fundum og þetta var boðað og boðað. Veiðigjöldin verða lækkuð. Þau eru dragbítur á sjávarútveginn. Þau verða lækkuð.

Fyrir kosningar ályktaði Sjálfstæðisflokkurinn: „Lögum um veiðigjöld þarf að breyta. Sjávarútvegurinn á eins og aðrar atvinnugreinar að greiða hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir að nýta sameiginlegar náttúruauðlindir. Sú ofurskattlagning sem lögð er á sjávarútveginn með lögum um veiðigjöld dregur þrótt úr fyrirtækjum og kemur í veg fyrir að þau geti ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar og tekið þátt í nýsköpun og þróunarstarfi. Þannig tapar Ísland því samkeppnisforskoti sem náðst hefur í sjávarútvegi og verðmætasköpun í greininni dregst saman.“ Í samræmi við þetta var því ítrekað lofað að veiðigjöldin yrðu lækkuð.

Hversu oft hafa fréttamenn fjallað um þetta undanfarin tvö ár? Hafa þeir spilað upptökur af frambjóðendum lofa lækkun veiðigjalda og spurt þá svo hvar efndirnar séu? Hafa álitsgjafarnir krafist þess í nafni orðheldni og heiðarleika að við þetta verði staðið?

Fyrir kosningar var fleira boðað. Til dæmis raunverulegri lækkun tekjuskatts.

Sjálfstæðisflokkurinn boðaði fyrir kosningar verulegar skattalækkanir, eða eins og hann sagði sjálfur þá ætti að lækka „eftirfarandi skatta á komandi kjörtímabili:

  • tekjuskatt einstaklinga, sem jafnframt verði í einu     þrepi
  • fjármagnskatt
  • tekjuskatt fyrirtækja
  • tryggingagjald 
  • virðisaukaskatt sem jafnframt verði aðeins í einu     þrepi 
  • auðlindagjald
  • tollar og vörugjöld 
  • eldsneytisgjöld
  • erfðafjárskatt
  • áfengisgjald“

Þá var sérstaklega tekið fram að leggja ætti niður eignaskatta, „þar með talinn svokallaðan „auðlegðarskatt“.

Hafa fréttamenn mikið hermt þessi loforð upp á menn? Hafa verið haldnir útifundir til þess að krefjast efnda? Hafa álitsgjafar bloggað mikið um þau „sögulegu svik“ að ekki sé búið að fækka skattþrepum niður í eitt, eða lækka erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt?

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem hafa talið sig mjög svikna af því að ekki sé búið að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna sem þeir sjálfir neituðu að halda um inngöngubeiðnina í Evrópusambandið, hafa þeir haldið miklar ræður þar sem þeir hafa krafist efnda á þessum loforðum?

Fréttamenn, sem hafa mörg hundruð sinnum spilað upptökur úr umræðuþáttum þar sem einstakir frambjóðendur gengust inn á þjóðaratkvæði um afturköllun inngöngubeiðninnar í ESB, þvert gegn stefnu eigin flokks, hafa þeir fréttamenn gert mikið af því að herma upp á menn loforð um lækkun tekjuskatts, fækkun skattþrepa, lækkun auðlindagjalds, lækkun fjármagnstekjuskatts og lækkum erfðafjárskatts?

En þegar fréttamenn minnast aldrei á þetta, hvað ætli búi þá að baki óteljandi fréttum um hvað þrír eða fjórir frambjóðendur sögðu um ESB í umræðuþáttum, þvert gegn samþykktri og birtri stefnu eigin flokks?

Næst þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar halda stóryrðaræðurnar um að ekki sé búið að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna sem nefnd var í einu eða tveimur viðtölum, þá ætti einhver að spyrja þá hvort þeir vilji ekki líka að staðið verði við loforð um að skattþrepum verði fækkað í eitt og fjármagnstekjuskattur lækkaður.

Það mætti jafnvel nefna þau óefndu loforð á næsta útifundi. Svona um leið og ræðumenn minna á að því var lofað að auðlindagjald yrði lækkað.