Vefþjóðviljinn 325. tbl. 15. árg.
Það er alltaf verið að koma fólki á óvart. Ríkisendurskoðandi tók það að sér í dag.
Hann hefur nú neitað að verða við beiðni þingnefndar um að stofnun hans meti arðsemi hugsanlegra Vaðlaheiðarganga. Fyrir þeirri ákvörðun færði hann tvær skýringar. Í fyrsta lagi væri slíkt mat ekki á verksviði ríkisendurskoðunar og í öðru lagi væri ríkisendurskoðandi vanhæfur til meðferðar málsins vegna tengsla sinna við Kristján Möller alþingismann, sem væri stjórnarmaður í Vaðlaheiðargöngum ehf.
Þessi frétt er með miklum ólíkindum. Sé það nú rétt að ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, sé vanhæfur til meðferðar málsins vegna fjölskyldubanda við Kristján Möller, sem virðist vera rétt, þá þýðir það að hann getur enga ákvörðun tekið um meðferð málsins. Hann getur því ekki tekið þá ákvörðun að neita að vinna verkið og ekki þá ákvörðun að verkið sé utan starfssviðs ríkisendurskoðunar. Fyrst ríkisendurskoðandi taldi sig vanhæfan til að vinna þetta verk þá bar honum að upplýsa forsætisnefnd alþingis um það og hún hefði getað sett annan mann sem ríkisendurskoðanda til að taka ákvörðun um það.
Það er með miklum ólíkindum að ríkisendurskoðandi átti sig ekki á þessu. Til skýringar mætti nefna, sem þó þarf ekki því málið er augljóst, að Kristján Möller var nýlega samgönguráðherra. Hvað ef hann væri enn ráðherra? Myndi ríkisendurskoðun þá aldrei endurskoða ráðuneytið? Sveinn Arason væri bara vanhæfur og þar með yrði ekkert endurskoðað í ráðuneyti Kristjáns Möllers? Auðvitað sjá allir að það yrði aldrei þannig. Nýr maður yrði auðvitað settur ríkisendurskoðandi í því máli og það yrði afgreitt á hans ábyrgð.
Og þegar allir sjá, að slík tengsl ríkisendurskoðanda og ráðherra myndu ekki hindra skoðun stofnunarinnar á ráðuneytinu, þá blasir við að þau koma ekki í veg fyrir að stofnunin skoði arðsemi hugsanlegra Vaðlaheiðarganga. Það þarf einfaldlega að setja annan mann í stað Sveins Arasonar í verkið. Og ef menn halda að slík athugun sé ekki á verksviði stofnunarinnar, að beiðni þingnefndar, þá má vekja athygli á því að samkvæmt lögum um ríkisendurskoðun er hlutverk hennar að „vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins.“