Helgarsprokið 20. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 324. tbl. 15. árg.

Á dögunum voru fjórir sjómenn dæmdir til refsingar fyrir ruddafengna framkomu við ungan dreng, þegar þeir voru saman til sjós. Sjómennirnir sögðu hins vegar aðeins hafa verið um „létta busun“ að ræða og að góð stemmning hefði verið um borð.

Ljóst er af dóminum í málinu að hegðun mannanna gagnvart drengnum var þeim til skammar, enda sagði hann að sér hefði liðið mjög illa vegna aðfaranna.

Flestum venjulegum mönnum, sem heyra frásögn af málinu, mun líklega bregða töluvert og spyrja hvort ungir menn sem hefja sjómennsku mega búast við slíkum móttökum í sinni fyrstu ferð. Formaður Sjómannasambandsins kvaðst undrandi og hneykslaður og ritstjóri Fréttablaðsins skrifaði hefðbundinn umvöndunarleiðara undir fyrirsögninni „Karlpungar“.

Það eru samt ekki aðeins einstaka ruddar í sjómannastétt sem hafa gaman af „léttri busun“. Fyrir tilviljun birtist í sömu viku í blaðinu Monitor, fimmtudagsfylgiriti Morgunblaðsins, viðtal við fremstu knattspyrnukonu Íslands, Margréti Láru Viðarsdóttur. Margrét Lára byrjaði ung að spila knattspyrnu með sér eldri konum og var komin í meistaraflokk þrettán ára. Hún var spurð hvernig það hefði verið að spila með fullorðnum konum og svaraði glaðlega:

Það var rosalega gaman, það er auðvitað draumur allra knattspyrnukvenna og –karla að spila með meistaraflokki síns félags. Það var frábært að fá tækifæri til þess en það var auðvitað líka ótrúlega stressandi. Það var ekki endilega stressandi að spila fótboltaleikina, heldur meira vegna þess að það var hefð í ÍBV að maður var flengdur af liðsfélögunum eftir fyrsta leikinn sinn, og þær tóku mig bara á miðjupunktinum beint eftir leik, gyrtu niður um mig og flengdu mig allhressilega, sælla minninga. Félagslegi þátturinn var sem sagt meira stress en fótboltinn sjálfur. Maður fékk svona óblíðar móttökur til að byrja með en eftir það voru þær ekkert nema almennilegheitin uppmáluð.

Nú má auðvitað segja að hér sé ekki líku saman að jafna. Það hlýtur að vera meira ógnvekjandi að verða fyrir „léttri busun“ á hafi úti, þar sem menn eru alfarið á valdi skipsfélaga, en ein „létta busunin“ mun hafa falist í því að unga drengnum var hótað að vera varpað fyrir borð, heldur en að vera flengdur á miðjum fótboltavelli. En meginmunurinn á alvarleika þessara atvika liggur samt í öðru. Fótboltastúlkan lýsir busuninni sem skemmtilegri endurminningu, en sjómannsdrengurinn var skelfingu lostinn og leið illa lengi á eftir.

Auðvitað verða menn að hafa í huga að þegar börn og unglingar eiga í hlut skiptir samþykki þeirra ekki öllu. Sumt má fullorðið fólk ekki gera við þau, jafnvel þó þau vilji sjálf. En að því sögðu þá mega menn hafa þessi ólíku dæmi til minnis um grundvallaratriði sem gleymist æ oftar í opinberri umræðu á Íslandi. Menn gleyma nefnilega vilja einstaklingsins svo oft. Það sem einum líkar illa líkar öðrum vel. Það sem einn getur ekki hugsað sér er einhver annar reiðubúinn að gera, ef hann fær nægilega vel borgað. Þessu gleyma – eða skipta sér ekkert af – margir þeirra sem sífellt reyna að neyða eigin siðferði upp á annað fólk. Það að dansa fáklæddur fyrir aðra, anda að sér tóbaksreyk á veitingastað, hjóla hjálmlaus eða kaupa verðmerktan lifrarpylsupakka, á allt það sameiginlegt að sumir eru reiðubúnir til að gera eitthvað af þessu, en aðrir ekki. Þeir, sem geta ekki hugsað sér eitthvað af þessu, hafa hins vegar engan rétt til þess að velja þar og hafna fyrir aðra en sjálfa sig. Þjóðfélagið stefnir nú á miklum hraða ríkisvæðingar, forræðishyggju og fyrirskipaðs hópsiðferðis. Gegn því verður frjálslynt fólk að berjast. Það verður að hrinda árás reglugerðarmanna og bannara á frelsi hins almenna manns.