Á dögunum fréttist af milljónastyrkjum útrásarfyrirtækja til Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóra. Ríkisútvarpið upplýsti að Jóhanna Sigurðardóttir segðist „ekki ætla að setjast í dómarasæti“ þegar kæmi að „peningastyrkjum til einstakra frambjóðenda“.
– Það þurfti ekki að koma á óvart, enda hefur Jóhanna Sigurðardóttir aldrei viljað kveða upp siðferðisdóma yfir stjórnmálamönnum, og alls ekki ef styrkir frá stórfyrirtækjum eru annars vegar.
Nú hefur verið sagt frá því, að fulltrúi Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans, Lára V. Júlíusdóttir, hafi lagt til að laun Más Guðmundssonar bankastjóra verði hækkuð um 400.000 krónur, þvert ofan í úrskurð kjararáðs sem hafði lækkað laun Más, í samræmi við ný lög sem ríkisstjórnin hefur sérstaklega hrósað sér af. Í gær sagði Ríkissjónvarpið svo frá því að Már hefði „fengið loforð héðan úr forsætisráðuneytinu um að hann héldi nánast óbreyttum kjörum, þrátt fyrir niðurstöðu kjararáðs. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal vegna þessa máls, hvorki í dag né í gær, þrátt fyrir ítrekaða ósk.“
– Þetta þarf ekki heldur að koma á óvart. Jóhanna Sigurðardóttir hefur aldrei viljað fara í viðtöl um launahækkanir ráðamanna. Og alls ekki ef „ofurlaun“ eru annars vegar, um þau hefur hún aldrei viljað tala.
Ha, viðtal? Um hvað? Styrki stórfyrirtækja til þingmanns? Nei, ég hef engan áhuga á svoleiðis | Ha, viðtal? Um hvað? Stórfellda launahækkun eins allra launahæsta embættismanns ríkisins, þvert ofan í úrskurð kjararáðs? Nei, ég hef engan áhuga á svoleiðis. |