Fimmtudagur 6. maí 2010

126. tbl. 14. árg.

T vennt ætti að koma til álita í umræðum um fjárstuðning við stjórnmálastarf.

Annars vegar: Er réttmætt að banna styrki til stjórnmálastarfs?

Það er hæpið að réttmætt sé að banna mönnum að styðja ákveðna flokka eða frambjóðendur með fjárframlögum þótt það hafi verið gert hér frá árinu 2007. Maður sem hefur nægan tíma aflögu og gengur í hús með bæklinga fyrir flokk má (enn) gera það. Hann má sitja við símann og hringja í útvarpsþætti, skrifa í blöðin og skrattast nótt sem nýtan dag fyrir flokkinn sinn. Maður sem á næga fjármuni má hins vegar ekki nýta þá til að vinna hugsjónum sínum framgang með stuðningi við flokk eða frambjóðanda. Báðir vilja leggja þau verðmæti sem þeir hafa úr að spila í stjórnmálastarfið. En aðeins öðrum er það heimilt.

Rétturinn til að stofna félög, þar með stjórnmálasamtök, var einhvern tímann talinn mikilvægur. Er ekki vegið að honum með því að takmarka fjárframlög til þeirra? Það vita allir að það kostar fjármuni að halda úti stjórnmálastarfi, ekki síst þeir sem bönnuðu frjáls framlög til stjórnmálabaráttu.Þeir úthluta sjálfum sér tvö þúsund milljónum króna á kjörtímabili til þess arna.

Nú um stundir er mjög vinsælt að vísa í jafnræðisreglu. Er eitthvað jafnræði í því að ríkið veiti ákveðnum flokkum þúsundir milljóna króna en nýir flokkar fái ekkert og megi ekki þiggja frjáls framlög einstaklinga og fyrirtækja?

Hins vegar: Er mögulegt að banna styrki til stjórnmálastarfs?

Það er vissulega mögulegt að banna að einhverju marki beinan fjárstuðning frá ákveðnum fyrirtækjum. Ýmis fyrirtæki geta þó stutt frambjóðanda eða flokk mjög hressilega án þess að gefin sé út reikningur fyrir því. Fjölmiðlar eru besta dæmið. Þeir geta hossað ákveðnum frambjóðendum með jákvæðum fréttum sem eru dýrmætari en nokkur auglýsing. Ýmsum samtökum er sömuleiðis hægt að beita í þessum tilgangi. Til dæmis verkalýðsfélögum. Að stjórnmálaflokknum sjálfum ógleymdum sem hafa mikið um það að segja hverjir veljast í störf, ráð og nefndir á vegum flokksins og hins opinbera og geta þar með vakið athygli á sér á opinberum vettvangi. Það sem bann við fjárframlögum gerir því í raun er að það fækkar þeim aðilum sem geta stutt frambjóðendur. Það eykur líkurnar á því að stuðningur hafi í raun áhrif, bæði á fylgi frambjóðandans og svo hann sjálfan.

Þegar bann af þessu tagi er sett á fjárstuðning við stjórnmálastarf spretta óhjákvæmilega upp ýmis hliðarfélög við stjórnmálaflokkana. Þau taka við fjárframlögum og verja þeim í þágu málstaðarins. Vinstri flokkarnir hafa raunar fyrir löngu skipulagt sellur af þessu tagi en þær eru að mestu fjármagnaðar af skattgreiðendum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins, Reykjavíkurakademían, jafnréttisstofa, og lýðheilsustofnun svo nokkuð sé nefnt.

Þ á geta menn ekki látið sjá sig á hjóli til 25. maí án þess að vera taldir þátttakendur í einhverju átaki stjórnmálamanna og íþróttaiðnaðarins. Og fyrr mun vart stytta upp í borginni.