Föstudagur 7. maí 2010

127. tbl. 14. árg.
Ég held að þetta sé mjög mikilvægur áfangi sem þarna er náð í því verkefni sem við erum í að endurreisa hér íslenskt samfélag. Það er afar mikilvægt að þeir sem hafa átt þátt í þessu hruni axli ábyrgð og ég held að við séum á ákveðnum tímamótum í þessu máli með þessum handtökum og atburðum sem áttu sér stað í gær vegna þess að það er auðvitað stór liður og þáttur í því að við getum náð sáttum í þessu samfélagi að þeir axli ábyrgð sem hana bera og ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður að ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að styðja við bakið á réttarkerfinu til að réttvísin fái sinn eðlilega framgang. Það höfum við gert með verulegu fjármagni.
– Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun um handtöku tveggja bankamanna í gær.

Þ að er þrennt við viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur við handtöku bankamannanna að athuga.

Í fyrsta lagi ættu hún, Steingrímur J. Sigfússon og aðrir stjórnmálamenn að hafa vit á því að þegja um mál sem eru í gangi í þeirri grein ríkisvaldsins sem þeir hafa ekki með höndum. Að minnsta kosti þar til niðurstaða fæst, ef ekki lengur. Óháð þrígreiningu ríkisvaldsins er það svo ólýsanlegur aumingjaskapur forystumanna ríkisstjórnarinnar að sparka í bankamennina nú þegar þeir eru komnir í gæsluvarðhald.

Í annan stað kemur það á óvart að Jóhanna telji það meira en líklegt að lög hafi verið brotin í bankastarfsemi á Íslandi. Voru þá einhverjar reglur í gildi hér til að brjóta? Kannski sami haugur af reglum og í öllum hinum löndunum þar sem bankar fóru einnig á hliðina? Og er það einhver sérstakur áfangi í því að „ná sáttum í þessu samfélagi“ að það komi í ljós að menn hafi haft rangt við ásamt því að geta ekki rekið banka? Stuðlar það að meiri sátt í samfélaginu að bankarnir hafi stundað ólögmæta starfsemi áður en þeir lögðu upp laupana? Líður einhverjum betur með myntkröfulánið sitt ef menn finna lögbrot innan um rústir bankanna?

Allt er þegar þrennt er. Jóhanna og Steingrímur segja að rannsókn þessara mála muni kosta þúsundir og aftur þúsundir milljóna króna og eru augljóslega mjög ánægð með það. Þó er skammt síðan Jóhanna hafði miklar áhyggjur af því að rannsókn efnahagsbrota á Íslandi væri að kosta alltof mikið.