Laugardagur 10. apríl 2010

100. tbl. 14. árg.

M innihlutinn í borgarstjórn barðist á dögunum fyrir því að borgin stæði ekki við samning sem hún hefði gert við Golfklúbb Reykjavíkur um stækkun golfvallar félagsins. Minnihlutinn taldi að kostnaðurinn, um 260 milljónir króna, væri óverjandi á niðurskurðartímum.

Vefþjóðviljinn hefur auðvitað samúð með sjónarmiðum minnihlutans í þessu máli. Fyrir utan að alveg er rétt hjá minnihlutanum, að nú verður að spara í rekstri borgarinnar, þá eru „samningarnir“ sem eyðslustjórnmálamenn hafa á síðustu árum tekið að gera við hagsmunahópa, ekki til þess fallnir að bæta skap skattgreiðenda. Eyðslusinnar benda bara á samninginn og láta eins og þeir séu engir eyðsluseggir, þeir vilji bara virða gerða samninga.

En hvað sem segja má um afstöðu minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur í golfvallarmálinu, þá hlýtur að mega treysta því að minnihlutinn sé enn harðari á sömu afstöðu gagnvart milljarðaeyðslunni sem borgaryfirvöld og ríkisstjórn halda nú áfram með, eins hratt og þau geta, án heimilda. Stöðugt er haldið áfram með byggingu tónlistarhússins í Reykjavík, í þeirri von að þegar þingmenn og borgarfulltrúar rakni úr rotinu verði „of seint að hætta við“. En það er alls ekki of seint, þó menn reyni eins og þeir geta að bjóða sem mest út, til að geta hótað fólki með skaðabótakröfum verktaka ef tekið verður fyrir frekari vitfirringarútgjöld til málsins.

En það er alls ekki of seint að hætta við. Í fyrra var talið að kosta myndi um fjórtán milljarða króna til viðbótar að ljúka verkinu. Sú tala er vafalítið vanáætluð. Hvaða heimildir eru fyrir samfelldri eyðslu í þetta brjálæðislega verkefni?

F rasamenn tala nú hver á eftir öðrum um að menn verði að „taka mark á“ skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Hvers vegna verða menn að gera það? Þarna eru einfaldlega á ferð þrír dauðlegir einstaklingar að gefa álit og einn þeirra sagði meðal annars frá því fyrirfram hverjar rannsóknarniðurstöðurnar yrðu í raun, og er því augljóslega vanhæfur til frekara nefndarstarfs.

Hvers vegna er skylda að „taka mark á“ niðurstöðum einhvers fólks, sem það alþingi er sat árið 2008 valdi í nefnd?Á ekki einfaldlega að meta álit þessa fólks, eins og álit allra annarra, eftir þeim rökum sem álitið verður stutt við? Eru nefndarmenn óskeikulir? Nei, varla halda menn það í alvöru. Þegar við blasir að nefndarmenn eru venjulegt fólk, skeikult eins og allir menn, hvers vegna keppast ímyndarleitendur þjóðmálaumræðunnar þá við að trompa hver annan í fyrirframloforðum um að „taka mark á“ og „læra af“ skoðunum þessa fólks, án þess að hafa séð nokkur rök sem nefndarmenn munu byggja álit sitt á?

Og ef að vanhæfi einhvers nefndarmanns blasir við, hvers vegna er þá reynt að leggja þá skyldu á herðar fólki að það taki mark á niðurstöðum hans?

En, eins og oft áður í íslenskri umræðu, eru frasamenn ekki beðnir um að rökstyðja frasa sína.