Föstudagur 9. apríl 2010

99. tbl. 14. árg.

H in alvitra rannsóknarnefnd alþingis hyggst nú skila ritverki sínu á mánudaginn, og er það þá ekki nema rúmlega tveimur mánuðum eftir að lokafrestur hennar til þess samkvæmt lögum rann út. Einn nefndarmanna, sem ekki er síður alvitur en hinir, Tryggvi Gunnarsson, lét þess getið á blaðamannafundi fyrir nokkru að hann teldi eðililegt að landsmenn fengju tveggja daga frí til að lesa, þegar skýrslan væri komin út.

Ætli snillingunum í nefndinni hafi ekki dottið í hug að birta skýrsluna bara á föstudegi, frekar en mánudegi? Til dæmis í dag. Á morgun byrjar helgi hjá flestum.

I ngibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar hefur stungið upp á að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði frestað. Sú hugmynd er, eins og flestar aðrar hugmyndir, auðvitað betri en sú sem ríkisstjórnin vinnur eftir, en þó aðeins skref í áttina að þeirri einu réttu í þessum efnum, sem er að aflýsa endanlega viðræðum um fullveldisafsal og aðild að erlendu ríkjasambandi.

Á blaðamannafundi í dag ræddi Jóhanna Sigurðardóttir um þessa frestunarhugmynd Ingibjargar Sólrúnar. Steingrímur J. Sigfússon var þar staddur og sá ástæðu til að fræða vitleysingana í kringum sig með eftirfarandi speki: „Það er náttúrlega ekki hægt að fresta því sem ekki er hafið“ og bætti því við að viðræður væru ekki enn hafnar. Og töldu fréttamenn sig þá ekki hafa meira að spyrja hann um.

Já, hvar væru landsmenn staddir ef ekki væri Steingrímur J. Sigfússon til að leiðbeina þeim? Það er auðvitað ekki hægt að fresta viðræðum við Evrópusambandið því þær eru ekki hafnar. Ef menn vilja fresta þeim þá verður að hefja þær strax svo ekki verði frekari bið á frestuninni.

Hver hefði trúað því, ef einhver hefði spáð að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir legði til að aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði frestað og þá myndi formaður Vinstrigrænna gefa svar eins og þetta?

Bara til gamans: Ef að Valgerður Sverrisdóttir hefði fyrir nokkrum árum lagt til að virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka yrði frestað um nokkur ár, dettur einhverjum í hug að formaður Vinstrigrænna hefði blásið á þá hugmynd með þeim orðum að framkvæmdir væru ekki hafnar og því væri ekki hægt að fresta neinu?

Og þegar allir sjá af hverju slíkt hefði verið útilokað, sjá menn þá ekki hversu galið svar Steingríms J. var í dag, og hversu fast hann hefur leyft krötunum að múlbinda sig?