Laugardagur 7. júní 2008

159. tbl. 12. árg.

Í vikunni kom út sumarhefti tímaritsins Þjóðmála og enn sem fyrr er þar á ferð hefti sem öllum áhugamönnum um þjóðmál er ánægja að eignast og lesa.

Megingreinar heftisins eru þrjár að venju og úr ólíkum áttum. Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur skrifar þarfa grein um loftslagsmál og þá vitleysu sem viðgengst í fjölmiðlaumfjöllun um hana. Ágúst fjallar um hita jarðarinnar og þær sveiflur hitastigs sem stafa ekki af mannavöldum heldur dyntum í öðrum aðila og illviðráðanlegum sem heitir sólin. Ágúst telur ekki útilokað að framundan sé tímabil minnkandi virkni sólarinnar, sem muni leiða til kólnunar jarðar en ekki hlýnunar. Ætti það að gleðja bæði náttúruverndarmenn og alla þá ísbirni sem Skagfirðingar hafa ekki skotið í sjálfsvörn þegar þar að kemur.

Fyrir fólk undir fertugu birta Þjóðmál ákaflega fróðlega og mikilvæga grein eftir Þorstein Sæmundsson stjörnufræðing, en hann var forgöngumaður að hinni stórkostlegu undirskriftasöfnun sem kennd var við Varið land og gerði að engu fyrirætlanir vinstristjórnarinnar í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar um að reka bandaríska varnarliðið úr landi, segja Ísland úr Atlantshafsbandalaginu og lýsa landið varnarlaust. Greinin er vel og skemmtilega skrifuð og atburðir verða ljóslifandi fyrir augum lesandans. Þessa sögu ættu allir áhugamenn um íslensk stjórnmál að þekkja.

Ótal margt fleira er í Þjóðmálum og verður ekki allt talið upp hér. En til marks um fjölbreytnina má nefna að Gísli Freyr Valdórsson skrifar um ójafna tekjuskiptingu fólks og hvernig hún er iðulega ranglega kennd við óréttlæti; Halldór Jónsson verkfræðingur ber saman evru og krónu og kemst að því að krónan beri þar af. Greinin fjallar raunar um margt fleira og er snaggaraleg og skemmtileg lesning eins og vænta má af Halldóri; eitt óvæntasta umfjöllunarefni þessa Þjóðmála-heftis er grein Guðrúnar Helgu Sigurðardóttur kennara um samísk stjórnmál og réttindabaráttu Sama; Þjóðmál minnast Aðalsteins Jónssonar nýlátins, Alla ríka; og hinn sérlega ritfæri Vilhjálmur Eyþórsson skrifar um Víetnam-stríðið, sem hann kallar eina misskildustu styrjöld allra tíma, og baráttu vinstrimanna á Vesturlöndum fyrir málstað kommúnista í Asíu og þá ógnarstjórn sem tók við þegar kommúnistar höfðu lagt undir sig lönd – eða „frelsað“ þau, eins og það hét gjarnan í vestrænum fjölmiðlum.

Áskrift að Þjóðmálum fæst í Bóksölu Andríkis og þar má einnig kaupa stök hefti tímaritsins.

Fram að þessu hefur áskriftarverð Þjóðmála verið 3.500 krónur á ári. Með sumarheftinu hækkar áskriftarverðið í 4.500 krónur á ári, en Bóksala Andríkis hefur samið um það við útgefandann að í eina viku frá og með deginum í dag gefist viðskiptavinum hennar færi á að tryggja sér ársáskrift á gamla verðinu.