N okkrir íslenskir tónlistarmenn ætla að stilla saman strengi sína á tónleikum til heiðurs íslenskri náttúru í sumar. Fréttastofa Stöðvar 2 kynnti hljómleikana sem „stærsta tónlistarviðburð Íslandssögunnar“ og fréttastofa Ríkisútvarpsins bætti um betur og telur um „heimsviðburð“ að ræða. Nú er ekki að efa að öll heimsbyggðin mun standa á öndinni yfir þessum viðburði og allt annað í íslenskri tónlistarsögu mun blikna í samanburðinum. En hvað ef ekki? Verða fyrirframfréttirnar um heimsviðburð og Íslandssögumet leiðréttar í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna?
Þ að var og. Hvítabjörn fann sér ísmola sem bráðnaði ekki í hlýnun af mannavöldum og entist upp að ströndum landsins. Um leið eru komnar fram kröfur um aukið eftirlit með hafís. Fréttamenn eru jafnan fljótir á vettvang ef einhver segir að einhvers staðar gæti verið meira eftirlit. Fréttastofa Sjónvarps hljóp á eftir því í gær og ræddi við sérfræðing um málið. Í flestum tilvikum standast fræðingarnir ekki mátið heldur taka undir kröfuna um aukið eftirlit og um leið auknar fjárveitingar til þeirra sem um málið fjalla.
En aldrei þessu vant hittu fréttamenn fyrir sérfræðing sem var ekki fastur í sjálfheldu sérhagsmuna. Sigrún Karlsdóttir deildarstjóri hjá Veðurstofu Ísland sagði einfaldlega að eftirlitið með hafís væri nægilegt og hún væri ánægð með skipan mála. Fylgst er með ísnum úr gervitunglum og í samstarfi og dönsku og norsku veðurstofurnar auk íslensku landhelgisgæslunnar.