H ver var það aftur sem Morgunblaðið fékk til að ritdæma nýja bók Steingríms J. Sigfússonar um umhverfismál? Æ jú, Andri Snær Magnason heitir hann. Auðvitað þurfti Morgunblaðið að leita til hans. Hvers annars?
Jóhanna Sigurðardóttir varð félagsmálaráðherra á dögunum og hyggst eflaust taka upp þráðinn sem hún kastaði frá sér fyrir þrettán árum, en síðast þegar hún sat í ríkisstjórn gat hún sér ekki sérstakt orð fyrir frjálslyndi. Hún átti til dæmis sinn þátt í því að Alþýðuflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar hindraði staðfastlega alla einkavæðingu ríkisbankanna sem og margt annað skref sem stíga hefði mátt í frjálslyndisátt. Þá hafa skattgreiðendur ekki átt sérstakan vin í Jóhönnu, sem iðulega hefur talað fyrir aukinni opinberri eyðslu. Og nú er Jóhanna komin að nýju til valda.
Morgunblaðið tók af því tilefni mikið viðtal við hana í sunnudagsblaði sínu – og hvern ætli blaðið hafi fengið til þess að sauma að Jóhönnu? Nú auðvitað Arnþór Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins.
Og spurningarnar sem Arnþór ber upp fyrir hönd Morgunblaðsins eru auðvitað eins og við mátti búast. Það er ekki minnst aukateknu orði á það að einhver kostnaður kunni að verða af því sem Jóhanna vill gera og spyrjandi Morgunblaðsins telur auðvitað mjög áríðandi. Eina ræðu Jóhönnu dæmir Arnþór meðal annars sem „falleg orð Jóhanna og háleitar hugsjónir“ áður en hann fer að ræða „atgervisflótta úr umönnunarstörfum“. Á einum stað í viðtalinu spyr Arnþór svo hvort „frjálshyggjan hafi ekki enn þau undirtök í Sjálfstæðisflokknum að stjórninni verði gert ókleift að hrinda þessum velferðaráformum í framkvæmd“ og sennilega bara tilviljun að næsta spurning var ekki hvort félagshyggjan hefði ekki þau undirtök í Samfylkingunni að stjórnarseta hennar kallaði á skuldasöfnun og skattahækkanir eins og á R-listaárunum í Reykjavíkurborg.
Þetta er nú það helsta sem Morgunblaðið taldi að lesendur sínir vildu vita um endurkomu Jóhönnu Sigurðardóttur.
Í nýjasta tölublaði Feykis á Sauðárkróki segir frá því, að hreppsnefnd Höfðahrepps hafi samþykkt drög að stofnsamningi fyrir sjávarlíftæknisetur. Hreppsnefndin hafi ákveðið að leggja sjö milljónir króna úr sjóðum hreppsins sem stofnfé þessa seturs, sem ætlað sé að rannsaka lífríki Húnaflóa.
Það var algerlega óhjákvæmilegt að ákveða að hreppsbúar skyldu leggja sjö milljónir króna í sjávarlíftæknisetur.
Útsvarið í Höfðahreppi er í lögbundnu hámarki, 13,03 %. Það er algerlega óhjákvæmilegt.