Hversu galnar geta hugmyndir orðið? Við þessari spurningu er ekkert einhlítt svar, en þó má svara því til, að hugmyndir verði þeim mun galnari sem hugmyndasmiðirnir bera minni kostnað af hugmyndunum. Nýjasta dæmið um þetta er hugmynd sem sett hefur verið fram um „skíðahöll“ í Úlfarsfelli eða nágrenni þess. Fyrir þá sem ekki þekkja til má láta þess getið að Úlfarsfell er rétt við höfuðborgina og er, eins og einhver kann að hafa getið sér til, lágt fjall. Formaður mannvirkjanefndar Skíðasambands Íslands – hvorki meira né minna – hefur sett fram þá hugmynd að byggja hús yfir skíðabrekku, og verður þá að telja að áhugamenn um byggingu tónlistarhúss hafi fengið harða samkeppni um titilinn „frekasti þrýstihópur landsins“, sem stöðug keppni stendur um.
„…hefur sett fram þá hugmynd að byggja hús yfir skíðabrekku, og verður þá að telja að áhugamenn um byggingu tónlistarhúss hafi fengið harða samkeppni um titilinn „frekasti þrýstihópur landsins“…“ |
Mannvirkjanefnd Skíðasambandsins beitir gamalkunnum aðferðum frekra þrýstihópa til að koma hugmynd sinni áleiðis. Svo þekkt er þessi aðferð að hún hlýtur að vera kennd á námskeiðum fyrir þá sem vilja stunda áhugamál sín á kostnað annarra. Aðferðin er einhvern veginn á þá leið, að sett er fram fráleit hugmynd sem í eyrum allra venjulegra manna hljómar sem hreinasta fjarstæða enda augljóslega allt of dýr til að geta verið raunhæfur kostur. Um leið er hins vegar birt jafn fráleit kostnaðaráætlun, sem á að sýna að hugmyndin sé alls ekki jafn fráleit og ætla mætti. Verkefnið sem ráðast skuli í kosti í raun ekki jafn mikið og venjulegt fólk myndi ímynda sér í fljótheitum, þvert á móti sé kostnaðurinn næstum hóflegur. Þá er sett fram áætlun um nýtingu og tekjur af fyrirbærinu, og sú áætlun á að sannfæra hinn almenna mann um að í raun verði nýtingin svo góð að hið opinbera þurfi ekki að greiða nema tiltölulega lítið fé.
Með þessari aðferð hefur á nokkrum árum tekist að koma hugmynd um byggingu tónlistarhúss af skýjaglópastiginu, þar sem hún átti mjög vel heima, og á alvarlegt undirbúningsstig, þangað sem hún átti ekkert erindi. Fyrsta kostnaðaráætlun um tónlistarhús var aðeins brot af þeim kostnaði sem nú er rætt um að slíkt hús muni kosta og þó á eftir að vinna hugmyndina enn frekar. Að ekki sé talað um að byggja húsið og fara fram úr áætlun af óviðráðanlegum ástæðum eins og gjarnan vill verða. Svipað yrði upp á teningnum ef einhverjum dytti í hug að færa hugmynd mannvirkjanefndar Skíðasambands Íslands af skýjaglópastiginu á alvarlegt umræðustig. Þá yrði framkvæmdakostnaður við að smíða hús yfir Úlfarsfell ekki áætlaður 600 til 800 milljónir króna, heldur einhver miklu hærri tala. Og rekstrarkostnaður, án fjármagnskostnaðar, yrði ekki 80 milljónir króna á ári, heldur mun meiri.
Íþróttahreyfingin hefur á síðustu árum sótt mjög í sig veðrið í baráttu þrýstihópa um aðstoð hins opinbera við aðgang að vösum almennings. Fjöldi illa nýttra íþróttahúsa og -valla um allt land bera árangri þessarar baráttu gott vitni, en eitt helsta minnismerkið um frekju þessa þrýstihóps er fyrirhuguð stækkun stúkunnar í Laugardalnum. Þar er nú stúka sem dugar vel til að rúma áhugamenn um knattspyrnu, nema ef til vill í einstaka tilfellum eins og þegar ítalska landsliðið á leið hjá og heldur stutta kennslustund í knattspyrnu fyrir íslenska landsliðið. Slíkir atburðir gerast vitaskuld sárasjaldan en eru engu að síður notaðir sem rökstuðningur fyrir því að skattleggja þurfi almenning um hundruð milljóna króna til viðbótar við aðra skattlagningu vegna þessarar einu íþróttar.
Sá árangur sem þrýstihópar ná í því að seilast ofaní vasa fólks sem kærir sig ekki um að styrkja þá með frjálsum framlögum, hvort sem það er í formi beinna styrkja eða greiðslu fyrir þjónustu, hlýtur að vera skattgreiðendum mikið áhyggjuefni. Og þar sem svo að segja allir eru skattgreiðendur, ýmist í gegnum beina eða óbeina skatta, nema hvort tveggja sé, þá má segja að yfirgangur ýmissa þrýstihópa hljóti að vera flestum mönnum áhyggjuefni. Of há skattbyrði er hvorki tilviljun né náttúrulögmál heldur bein afleiðing af þeirri eftirgjöf sem slíkum þrýstihópum er sýnd. Ef skattgreiðendur létu oftar í sér heyra opinberlega og ef þeir sem sitja við stjórnvölinn hjá ríki og sveit segðu oftar nei, þá væru skattar almennings mun lægri en þeir eru nú. Þá byggju allir við betri kjör og gætu varið fé sínu í sín eigin áhugamál. Þess í stað er almenningur nú neyddur til að eyða umtalsverðum hluta tekna sinna í áhugamál annarra.