Laugardagur 7. ágúst 2004

220. tbl. 8. árg.

Þrjár sveitarstjórnir á austurlandi hafa ákveðið að sameina sveitarfélögin og bíður sú ákvörðun nú staðfestingar félagsmálaráðherra – ef hún bíður þá nokkuð, slíkt er sameiningaræðið í félagsmálaráðuneytinu, auk þess sem ráðherrar virðast stundum halda að áskilnaður um staðfestingu þeirra sé eingöngu formsatriði. Þessi ákvörðun er óviðkunnanleg svo ekki sé nú meira sagt, og það segir Vefþjóðviljinn ekki vegna almennrar andstöðu sinnar við sameiningu sveitarfélaga. Hér er nefnilega það að athuga að íbúar þessara sveitarfélaga hafa ekki fengið að greiða atkvæði um þessa sameiningu. Þegar kosinn var forseti Íslands á dögunum var jafnframt kosið um tillögu þess efnis að sveitarfélögin Austur-Hérað, Norður-Hérað, Fellahreppur og Fljótsdalshreppur, yrðu sameinuð í eitt sveitarfélag. Í þremur fyrst nefndu sveitarfélögunum var tillagan samþykkt, en hún var hins vegar felld í Fljótsdalshreppi. Sveitarstjórnir, þar sem tillagan var samþykkt, hafa nú ákveðið að sameina þau sveitarfélög í eitt, enda hafi sameining verið samþykkt í kosningunni í júní. Þessi ákvörðun þeirra stenst að líkindum lög enda eru þau mjög sniðin að þörfum sameiningarsinna, en óeðlileg er hún engu að síður. Íbúarnir sem samþykktu, þeir voru að samþykkja að þeirra sveitarfélag gengi í eina sæng með hinum þremur, ekki einhverjum tveimur af þeim. Ætli ekki megi gefa sér að góður og gegn kjósandi hafi vegið og metið það sem hann taldi mæla með og það sem mælti gegn sameiningu, og kosið svo í framhaldi af því. Það reikningsdæmi, ef svo mætti kalla, er hins vegar allt annað þegar eitt sveitarfélagið heltist úr lestinni. Og ef menn halda að Fljótsdalshreppur skipti nú litlu í svona útreikningum, þá má minna á að í því sveitarfélagi verður meðal annars örlítil starfsemi sem einhverjir hafa ef til vill heyrt nefnda, kallast Kárahnjúkavirkjun og gefur kannski svolitlar tekjur af sér.

Þeir íbúar sem mættu á kjörstað og sögðu já við því að fá Fljótsdalshrepp og Kárahnjúkavirkjun í sveitarfélag sitt, þeir munu nú, vegna þessa jás síns, verða nú þegnar nýs sveitarfélags þar sem hvorki Fljótsdalshreppur né Kárahnjúkavirkjun verða með. En þau verða samt í nágrenninu.

ÍViðskiptablaðinu er fjallað um margt annað en viðskipti. Í nýjasta tölublaði er meðal annars birtur skorinorður dómur um bókina „Randafluguhunang“ eftir sænska rithöfundinn Torgny Lindgren. Dómurinn er harður og virðist ritdómarinn litla ánægju hafa haft af lestrinum. Allt í lagi með það auðvitað, en í niðurlagi dómsins segir meðal annars: „Þessi bók var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1995 af hálfu Svía. Segir meira en mörg orð um smekk þeirrar þjóðar…“. – Hvernig ætli sænska þjóðin hafi nú tilnefnt þessa bók? Hvernig ætli smekkur sænsku þjóðarinnar sjáist af þeirri tilnefningu?