Það er sennilega óhætt að segja að breskir dómstólar hafi fengið nægju sína af Omorotu Francis Ayovuare. Að minnsta kosti hefur nú verið úrskurðað að maður þessi þurfi sérstakt leyfi dómara ef hann vilji bera mál undir dómstóla og að dómari megi hafna málum frá þessum manni án þess að gagnaðilinn þurfi að bera kostnað af, ef dómaranum þykir ekki næg ástæða fyrir málshöfðun. Nú hljómar þetta sennilega ekki of vel í eyrum þeirra sem álíta að allir eigi að komast með mál sín til dómstóla ef þeim þykir þurfa, en þá er á hitt að líta að á undanförnum árum hefur Omorotu Ayovuare farið áttatíu og tvisvar í mál við allskyns fyrirtæki og sakað þau um að hafa hafnað starfsumsókn sinni þar sem hann er svartur, en Ayovuare er fæddur í Nígeríu. Málaferli þessi hafa samtals kostað fyrirtækin því sem svarar til um 65 milljóna íslenskra króna og breska ríkið hefur þurft að greiða um 10 milljónir í kostnað af málaferlum þessa manns. Af áttatíu og tveimur fyrirtækjum sem maðurinn hefur stefnt hefur eitt ráðið hann til starfa. Stundum hefur Ayovuare ekki einu sinni beðið eftir skýringum frá fyrirtækjunum heldur fer beint í mál þegar honum er hafnað. Hann hefur meira að segja stefnt fyrirtækjum fyrir kynþáttamismunun þegar annar svartur umsækjandi hefur verið tekinn fram fyrir hann. Omorotu Francis Ayovuare er ekkert lamb að leika sér við. Stútfullur af réttlætiskennd.
Vel má vera að þessi mæti maður telji að sér sé hafnað vegna þess hvernig hann er á litinn en ekki vegna annarra og persónulegri atriða. Það er nefnilega algengt að fólk ímyndi sér slíka hluti. Það er til dæmis algegnt að konur telji að þær fái síður störf en karlar og það eins þó að hið opinbera hafi komið á fót sérstökum nefndum og stofnunum til að vinna að því að konum sé hyglað á kostnað saklausra karlmanna sem ekkert hafa gert af sér annað en að sækja um störf. Sama trú er algeng til dæmis í stjórnmálum. Ef kona nær ekki þeim árangri sem hún vill í prófkjöri þá heldur hún að það sé af því að „konur eigi erfitt uppdráttar“ eða að konum sé „ekki treyst“. Jafnvel þó í sama prófkjöri nái ýmsir karlar ekki heldur þeim árangri sem þeir stefndu að, þá virðast menn engar ályktanir draga af því. Fyrir nokkrum árum fékk kona á sjötugsaldri heldur illa útreið í prófkjöri eins stjórnmálaflokksins og hún taldi að það sýndi að eldra fólk væri bara afskrifað. Henni virtist ekki detta í hug að vera mætti að kjósendur hefðu horft til þess hvað lá eftir sextán ára þingsetu hennar og ekki litist á blikuna.
Vefþjóðviljinn er þess fullviss að undantekningarlítið hafi það fólk rangt fyrir sér sem telur að karl sé tekinn fram yfir konu vegna kynferðis þeirra. Flestir vinnuveitendur hljóti að vilja ráða þá til starfa sem þeir haldi að reynist best. Þegar stjórnmálamenn skipa í störf þá vita þeir að þeir fá hrós fyrir að skipa konu en verða sennilega kærðir ef þeir gera það ekki. Sú hugmynd að stjórnmálamaður skipi karl í starf þrátt fyrir að á móti honum sæki hæfari kona, hún er almennt mjög ósennileg. Af hverju í ósköpunum ætti stjórnmálamaðurinn eiginlega að fara þannig að? En alltaf halda kærumál áfram. Það er sífellt verið að stofna úrskurðarnefndir og kærunefndir til að taka á öllum kærunum því búið er að telja fólki trú um að það sé sífellt verið að brjóta á því. Dómstólar fá sífellt fleiri „mannréttindamál“ á sín borð. Ríkið veitir sífellt fleirum „gjafsókn“ – sem þýðir að skattgreiðendur borga kostnað kverúlantsins af málshöfðuninni, stefnandinn og lögmaður hans hafa engu að tapa sjálfir en geta fiskað á ríkissjóð eins og þeim hentar – til að reka hin og þessi furðumálin. Fjölmiðlar láta eins og allir séu að verja heilagan málstað – jafnvel erlendir „flóttamenn“ sem hingað koma fá allir fjölmiðlaumfjöllun eins og þeir séu í raun að flýja stórkostlegar ofsóknir og það eins þó sumir þeirra séu kunnir hrappar sem fara hlæjandi milli félagsmálastofnana vestrænna ríkja milli þess sem þeir taka eitt grátstönt við auðtrúa sjónvarpsmenn.
Eflaust eru til dæmi um næstum hvaða misrétti sem vera skal. En það breytir ekki þeirri trú Vefþjóðviljans að oftar en ekki ráði ímyndunin för en ekki raunveruleikinn.