Þriðjudagur 25. nóvember 2003

329. tbl. 7. árg.

Þ

Þessi dansflokkur fékk ekki að dansa hér vegna launa sem voru úr takti við íslenskan raunveruleika. Ekki fylgir sögunni hvort þau voru of há eða lág.

að hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að Íslendingar eru í fjölmenningarsamfélagi, Ísland er fjölmenningarsamfélag. Stjórnmálamenn og aðrir leiðtogar lífsins hafa í það minnsta keppst við að telja landsmönnum trú um að svo sé. Vei þeim er efast.

Eins og lesendum kann að vera kunnugt um hefur Vefþjóðviljinn gaman af því að tönnlast á grís. Hann var því ekki lítið spenntur þegar hann varð sex ára í vetur sem leið og hóf göngu í Austurbæjarskóla. Hafði hann haft spurnir af því að í skólum væri boðið upp á gómsæta „skólamáltíð“ dag hvern. Nema „starfsdaga“ kennara því þá liggur almennt starf í skólunum niðri. Vonbrigði lítils snáða voru því mikil þegar í ljós kom að búið var að úthýsa grísakjöti úr mötuneyti skólans. Unnendur gríss eru útlægir úr fjölmenningarsamfélaginu.

Þetta kann að vera undantekningin sem sannar regluna. Ef til vill er pláss fyrir alla í fjölmenningarsamfélaginu. Menn verða þó að hafa eitt á hreinu: Að vera í samræmi við íslenskan raunveruleika. Þetta á ekki síst við á útborgunardegi. Erlendir starfsmenn sem hingað koma mega ekki þiggja laun sem „þykja ekki boðleg Íslendingum“. Jafnvel þótt launin séu engu síðri en þeim bjóðast annars staðar er ekki pláss fyrir slíkt í fjölmenningarsamfélaginu. Hvað eftir annað hefur svo komið í ljós að laun mega ekki heldur vera of há fyrir íslenskan veruleika. Þannig gerist það iðulega að þegar búið er að lýsa því við hve ömurlegar aðstæður nektardansarar starfa er hneykslast á því að þeir hafi háar tekjur fyrir starf sitt.

Það merkilega er að ýmsir þeir sem tala hvað mest um mikilvægi fjölmenningarsamfélags hafi nær ekkert þol gagnvart minnstu frávikum frá hinum eina sanna íslenska veruleika.