Fimmtudagur 27. nóvember 2003

331. tbl. 7. árg.

Þ

Yfirheyrði Samkeppnisstofnun einstaklinga án þess að þeir hefðu stöðu grunaðs manns og afhenti lögreglunni svo skýrslur sem þannig var aflað?

að vakti nokkra athygli á sínum tíma þegar skýrt var frá því að forystumenn Olíufélagsins hefðu ákveðið að „vinna með“ starfsmönnum Samkeppnisstofnunar að því að upplýsa svokallað „olíumál“ sem gleggst. Ef marka má fréttir undanfarinna daga þá hefur þá meðal annars það hangið á spýtunni að starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafi í staðinn heitið forsvarsmönnum Olíufélagsins því að ekkert yrði gert með hugsanleg samkeppnislagabrot einstaklinga sem tengjast félaginu; það er að segja, ef í ljós kæmi að lög hefðu verið brotin þá yrði látið sitja við það að félaginu sjálfu yrði gert að greiða sektir en einstakir starfsmenn yrðu látnir í friði. Samkeppnisstofnun hefur reyndar ekki staðfest að slíkt samkomulag hafi verið gert en hitt mun óumdeilt að Olíufélagsmenn og Samkeppnisstofnunarforystan hittust á leynilegum fundum og eftir þá tóku þeir fyrrnefndu að gefa allskyns skýrslur.

Fyrstu mánuði ársins yfirheyrðu Samkeppnisstofnunarmenn fjölmarga forsvarsmenn eldsneytissölufyrirtækjanna. Enginn þeirra hafði það sem kallað er réttarstaða grunaðs manns, en eitt meginatriði hennar er sem kunnugt er að yfirheyrður maður getur sér að refsilausu neitað að svara spurningum um sakarefnið. Það var sko alltaf verið að rannsaka félögin en ekki þá sjálfa. Svo þegar Samkeppnisstofnun hafði staðið fyrir þess háttar yfirheyrslum fram og til baka, þá gekk hún skyndilega til óformlegs fundar við ríkislögreglustjóra, sagði honum og þó ekki af rannsókninni, en lét svo löngu síðar eins og með þessum fundi hefði stofnunin verið að upplýsa lögreglu um málið svo hún gæti, ef hún teldi þörf á, farið að rannsaka hugsanleg brot einstaklinga. Virtist þetta gert til þess að þegar múgæsingamenn og pópúlistar færu síðar að heimta rannsóknir og ákærur á einstaklinga, að þá yrði ekki sagt að málið hefði fyrnst hjá Samkeppnisstofnun heldur hefði lögreglan í raun ekki gert neitt. Forysta Samkeppnisstofnunar hélt því meira að segja fram að hún tæki í raun aldrei afstöðu til þess hvort einstaklingar hefðu brotið samkeppnislögin, hún liti bara á hlut fyrirtækjanna en svo sæi lögreglan um hugsanleg mál einstaklinga. Þessar yfirlýsingar forystu Samkeppnisstofnunar voru hins vegar augljós fyrirsláttur því stofnunin hafði aldrei áður gengið á fund lögreglu með þau mál sem hún hafði rannsakað og þar með blasir við að í raun höfðu starfsmenn Samkeppnisstofnunar metið það svo að einstaklingar hefðu ekki brotið af sér; Samkeppnisstofnun hefði því í raun metið hugsanlega refsiábyrgð einstaklinga, öfugt við það sem forsvarsmenn hennar sögðu jafnan í heilagleikakastinu í sumar.

Síðsumars ákvað ríkissaksóknari svo að hafin skyldi opinber rannsókn á hugsanlegum lögbrotum einstakra starfsmanna eldsneytissölufyrirtækjanna og brá þá svo við að töluverðan tíma tók fyrir lögregluna að fá gögn málsins hjá Samkeppnisstofnun. Eftir að hafa skoðað málin lýsti ríkissaksóknari, sem hefur þá stöðu innan ríkisvaldsins að vera æðsti handhafi ákæruvalds í landinu, því yfir að áframhaldandi rannsókn Samkeppnisstofnunar á málinu yrði til þess að spilla fyrir því opinbera máli sem í undirbúningi væri og gæti orðið til þess að ekki fengist eðlileg niðurstaða í það. Og hver urðu viðbrögð forsvarsmanna Samkeppnisstofnunar við þessari yfirlýsingu ríkissaksóknara? Samkeppnisstofnun var bara alveg sama. Hún – sem vel að merkja er ríkisstofnun en ekki einkafyrirtæki sem hefur eitthvað frjálsari hendur – ætlar sko að fara sínu fram án þess að svo mikið sem velta því fyrir sér þó ríkissaksóknari telji það spilla opinberu máli. Og enginn segir neitt og allra síst viðskiptaráðherra svokallaður sem blaktir eins og strá í hvert sinn sem vind leggur frá Samkeppnisstofnun. Ætli nokkur önnur opinber stofnun kæmist gagnrýnislaust upp með að spilla opinberri rannsókn vitandi vits?

Flókið allt saman? Já þetta er það. Vefþjóðviljinn er ekki áhugasamur um opinberar rannsóknir en það fer að verða kominn tími til að rækilega verði farið yfir það hvernig starfsmenn Samkeppnisstofnunar haga sér í persónulegri styrjöld sinni við vindmyllur sínar. Lofuðu þeir eða lofuðu þeir ekki starfsmönnum ákveðins félags friðhelgi? Yfirheyrðu þeir einstaklinga án þess að þeir hefðu stöðu grunaðs manns, yfirheyrðu þá eins og það væri beinlínis verið að rannsaka aðra aðila, og fóru þeir svo til lögreglunnar með skýrslur sem þannig var aflað? Verða slíkar skýrslur notaðar sem sönnunargagn í opinberum málum? Eiga dómstólar kannski að byggja á slíkum pappírum? Er Samkeppnisstofnun vitandi vits að standa fyrir rannsókn sem ríkissaksóknari, æðsti handhafi ákæruvalds í landinu, hefur formlega sagt henni að spilli fyrir opinberu máli? Þarf þessi stofnun ekki að standa neinum skil á neinu?